150. löggjafarþing — 110. fundur,  29. maí 2020.

atvinnuleysistryggingar og Ábyrgðasjóður launa.

813. mál
[15:32]
Horfa

 velfn.Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni og framsögumanni málsins kærlega fyrir hennar yfirferð og yfirferð yfir nefndarálit meiri hluta og breytingartillögur. Markmið þessarar hlutabótaleiðar er að viðhalda störfum og um það erum við öll sammála. Við erum ekki öll sammála um hvaða leiðir eru bestar til að fara þangað. Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort meiri hlutinn hafi ekki áhyggjur af skilyrðunum sem eru ólík í þessu máli annars vegar og uppsagnarmálinu hins vegar, en það virðist hafa sýnt sig að þau hvetji til uppsagna frekar en að viðhalda hlutabótaleið. Við sjáum það nú þegar að fleiri og fleiri fyrirtæki eru að taka starfsfólk sitt af hlutabótaleiðinni. Mig langar einnig að spyrja hv. þingmann hvort hún muni styðja tillögu minni hluta sem hefur skýrari skilyrði um fyrirtæki í skattaskjólum, svo að þau muni ekki geta nýtt sér þessi úrræði.