150. löggjafarþing — 110. fundur,  29. maí 2020.

atvinnuleysistryggingar og Ábyrgðasjóður launa.

813. mál
[15:35]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta velfn. (Helga Vala Helgadóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Aðeins til útskýringar varðandi fjárhagsleg samskipti þá fara svona greiðslur, þar sem verið er að reyna að leyna tekjum, fram með ýmsum hætti. Oft og iðulega er það gert með því að fyrirtæki er t.d. að selja afla á undirverði sem seldur er á hærra verði úr fyrirtæki í skattaskjóli; það greiðir þóknun til stjórnarmanna, óeðlilega þóknun til stjórnarmanna, í lágskattaumhverfi o.s.frv. Þessi tillaga er því ekki spunnin upp hér heldur kemur hún frá sérfræðingum.

Varðandi skilyrði um nýtingu starfskrafta þá getur vinnuveitandi nýtt starfskraft í því hlutastarfi sem skilyrt er, þ.e. 25–80%, en í uppsagnarleiðinni er vinnuveitanda veitt heimild til að nýta starfskrafta starfsmannsins að fullu leyti. (Forseti hringir.) Telur þingmaðurinn það ekki vera hvata fyrir fyrirtæki sem eru að reyna að reisa sig við til að segja fólki frekar upp í stað þess að setja það á hlutabætur?