150. löggjafarþing — 110. fundur,  29. maí 2020.

atvinnuleysistryggingar og Ábyrgðasjóður launa.

813. mál
[15:46]
Horfa

Frsm. meiri hluta velfn. (Lilja Rafney Magnúsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er ágætt að koma inn á þetta. Það kom vissulega fram þetta hlutfall, að hjá 85% fyrirtækja sem nýttu sér þetta úrræði með launafólkið væru starfsmenn einn til sex. 89% heildarlauna þeirra hefðu verið undir 3 milljónum. En það sem ég sagði í upphafi, varðandi það að fyrirtæki hefðu misnotað þessa leið, þá vitum við að það voru sex fyrirtæki sem strax kom í ljós að hefðu gert það og það var sýnilegt almenningi. Svo bættust fyrirtæki við og mér skilst að 50 fyrirtæki hafi endurgreitt stuðning til Vinnumálastofnunar. Ég er bara þar stödd og fleiri að það þurfi skýrar reglur og viðurlög og skýrleika, alveg eins og Ríkisendurskoðun fer fram á og vísar til að sé gott í þessu frumvarpi, að almenningsálitið dugi ekki eitt og sér í því sambandi. (Forseti hringir.) Ég er á því að við þurfum að hafa skýrleika í þeim málum og tek undir með Ríkisendurskoðun.