150. löggjafarþing — 110. fundur,  29. maí 2020.

atvinnuleysistryggingar og Ábyrgðasjóður launa.

813. mál
[20:05]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið og tækifærið til þess að fjalla um málið. Það er mjög gott dæmi um hvernig breyttar aðstæður geta kallað á önnur úrræði. Þegar áfallið kemur vita fyrirtækin ekki hvað bíður þeirra, hversu lengi tekjufallið mun vara og annað slíkt. Mögulega hefur þessi stóra verslun átt ágætis eigið fé í upphafi og ef ekki hefði komið til hlutabótaleiðarinnar hefði hún sagt mun fleiri starfsmönnum upp. Það er gott dæmi um það að hversu vel hlutabótaleiðin virkar til þess að bjarga þeim störfum og framlengja þau, annars hefði viðkomandi verið sagt upp og núna, þremur mánuðum seinna, hefði hann verið kominn á atvinnuleysisbætur. En vegna hlutabótaleiðarinnar tókst að lengja þetta.

Ég veit ekki hvers konar verslun þetta er, hún mun kannski fara að fá einhverjar tekjur núna en þau vita ekki hvort það gerist, hvort annað áfall kemur í haust, önnur bylgja, eða hvenær tekjurnar koma en eigið fé er orðið minna. Þau eiga því ekki lengur eigið fé til að greiða þessum starfsmönnum 50% í hlutabótaleiðinni, 50% af laununum og því er verið að bjarga þeim fyrirtækjum frá gjaldþroti með uppsagnaleiðinni. Þau höfðu því ekkert annað val. Það hefur nákvæmlega ekkert að gera með muninn á leiðunum eða skilyrði þeirra, ekki neitt.