150. löggjafarþing — 112. fundur,  2. júní 2020.

jöfnun raforkukostnaðar.

[14:12]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Herra forseti. Við höfum átt samtal um þennan þátt raforkukerfisins áður hér á þingi. Ég hef sagt að þetta ójafnvægi sé einn stærsti meinbugur á raforkukerfi okkar og sú skoðun stendur að sjálfsögðu. Verkefnið fer ekkert frá okkur. Möguleikarnir eru í raun ein gjaldskrá, sem við höfum skoðað en það eru ýmsir meinbugir á því að hækka jöfnunargjald sem fólk í þéttbýli myndi ekkert finna mikið fyrir, og ekki hefur verið tekin ákvörðun um að gera það, eða einfaldlega framlag úr ríkissjóði. Jöfnunargjaldið í dag skilar u.þ.b. 1 milljarði þannig að það þyrfti um 1 milljarð í viðbót sem væri þá hægt að taka bara af fjárlögum. Við metum það sem svo að hækkunarþörf vegna jöfnunar dreifikostnaðar í dreifbýli nái hámarki á næstu þremur til fimm árum. Það er áhugavert að skoða í því samhengi að ef við setjum sérstakt framlag úr ríkissjóði þá mun það fara aftur niður, það verða ekki útgjöld úr ríkissjóði inn í eilífðina.

Eins og hv. þingmaður nefndi hefur ýmislegt gengið á frá því að við vorum að ræða þetta fyrir nokkrum mánuðum og það má alveg segja að öll áhersla hafi verið lögð á að treysta kerfið. Við erum búin að setja nokkur hundruð milljónir aukalega til að treysta kerfið, til að koma þessum strengjum í jörðu, sem er algjört lykilatriði. Við getum ímyndað okkur hver staðan hefði verið hérna í þessum óveðrum ef við hefðum áfram verið með allar þessar línur í lofti þegar kemur að dreifikerfinu. Það má alveg segja að það sé aðaláherslan í dag að kerfið sé nægilega traust til að þola slík óveður. Það breytir ekki hinu að við þurfum að jafna þennan kostnað. Það er bara spurning hvort við ætlum að taka það úr ríkissjóði. Það þarf þá líka að vera forgangsröðun. Það er þá milljarður sem fer í það en ekki eitthvað annað. Það verður skrautleg vinna að fara í gegnum það í hvað peningarnir eiga að fara sem við eigum ekki til. En það er alveg rétt að það er erfitt að tala um sanngjarnt raforkukerfi (Forseti hringir.) og raunverulegt frelsi til búsetu þegar mismununin er svona mikil. Ég er alveg föst á því að við þurfum að finna leið til að laga þetta, (Forseti hringir.) til þess að það sé jafn kostnaður.