150. löggjafarþing — 112. fundur,  2. júní 2020.

forvarnir gegn kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi og áreitni, ásamt áætlun fyrir árin 2021–2025.

643. mál
[15:34]
Horfa

Silja Dögg Gunnarsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta fer nú að hljóma svolítið áráttukennt, ræður hv. þm. Bergþórs Ólasonar um umhverfismál. Spurning mín var einföld áðan og jú, svo sannarlega hafa þingmenn Framsóknarflokksins frelsi til að tjá sig. En mig langar samt sem áður að vita hver stefna Miðflokksins er varðandi kynferðislegt og kynbundið ofbeldi. Hver er stefna flokksins? Einstakir þingmenn hafa greinilega bara sínar skoðanir, hvort sem þeir eru í nefnd sem fjallar um málið eða ekki. Hver er stefna flokksins í þessum efnum? Ég er líka mjög hissa á ræðum þingmanns um umhverfismál. Hvar stendur Miðflokkurinn þar? Viðurkennir flokkurinn ekki þær breytingar sem eru að eiga sér stað á loftslagi í heiminum og afleiðingum þeirra? Eru menn afneitunarsinnar eða hvað það nú er kallað? Mér finnst þetta áhugavert og ég myndi gjarnan vilja fá að vita þetta allt saman.

Að lokum, herra forseti: Fræðsla er forsenda þess, eins og ég sagði í ræðu minni áðan, að við rjúfum þögnina sem hefur (Forseti hringir.) umlukið ofbeldi öldum saman og hana þurfa leikskólabörn að fá rétt eins og aðrir.