150. löggjafarþing — 112. fundur,  2. júní 2020.

forvarnir gegn kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi og áreitni, ásamt áætlun fyrir árin 2021-2025.

643. mál
[15:59]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegur forseti. Ég ætlaði upprunalega ekki að halda ræðu heldur láta nefndarálitið tala sínu máli, en ég stóðst hins vegar ekki mátið eftir að hafa hlýtt á ræðu hv. 4. þm. Norðvest., Bergþórs Ólasonar, sem mig langar ekki í sjálfu sér að gera að sérstöku umtalsefni, en hún vakti mig til umhugsunar um að það er ýmislegt í þessu máli og ofbeldismálum almennt sem mér finnst greinilegt að hafi gott af dálítilli umræðu. Nú er hv. þingmaður ekki í salnum til að verja sig ef ég segi eitthvað óvarlegt. Ég ætla að reyna að vera sanngjarn en ég get líka byggt álit mitt á reynslu minni af því að ræða ofbeldismál um tíðina og á því að vera hluti af þessu samfélagi.

Þannig er mál með vexti, virðulegur forseti, að ofbeldi hefur liðist í íslensku samfélagi í gríðarlegum mæli í gríðarlega langan tíma. Þegar hin svokallaða #metoo-bylting átti sér stað kom mér ekki mest á óvart eðli brotanna í sjálfu sér heldur magnið. Það var óheyrilegt magn af þeim. Ég man að ég sat einhvern tímann á fundi og átti að vera stjórnmálamaðurinn með skoðun á öllu og lausn á öllu og ég hlustaði á þetta og var kjaftstopp. Ég vissi ekki hvað ég ætti að segja. Þvílíkt magn af ofbeldi hefur viðgengist í samfélagi okkar. En það er ástæða fyrir því, virðulegi forseti. Hún er ekki góð en hún er til. Hún er sú að þegar menning tileinkar sér einhverja hegðun verður hún yfirþyrmandi og kúgandi. Það verður skrýtið og djarft að segja frá einhverju sem samfélagið er einhvers staðar í undirmeðvitundinni á vissan hátt búið að samþykkja.

Ég óska engum þeirrar lífsreynslu að þurfa að segja frá ofbeldi sem viðkomandi verður fyrir en það er, eins og margs konar erfið lífsreynsla, lærdómsríkt. Það kennir manni hvað gerist þegar sagt er frá ofbeldi. Þá getur orðið ofboðslega mikil afneitun vegna þess að fólki þykir vænt um ofbeldismanninn. Ofbeldismaðurinn er ekki endilega vond manneskja í öllu daglegu lífi. Alls konar fólk beitir ofbeldi, oft óafvitandi vegna þess að mörkin eru ekki á hreinu í samfélaginu eða í sambandinu eða vegna þess að viðkomandi telur sig einfaldlega hafa rétt til einhvers sem hann hefur ekki rétt á. Það er líka ofboðslega ríkjandi viðhorf í samfélaginu enn þann dag í dag — en fer minnkandi, sýnist manni, miðað við umræðuna sem betur fer — að manneskjur geti með tilætlunarseminni einni saman átt tilkall til líkama annarrar manneskju. Þetta er gríðarlega ríkt, vil ég meina, miklu meira meðal karla en kvenna. Það er þó til hjá konum líka.

Í ræðu hér áðan fór hv. 4. þm. Norðvest., Bergþór Ólason, út í gamla línu sem skýtur alltaf upp kollinum þegar á að fara að taka á ofbeldismálum gagnvart minnihlutahópum eða minnimáttarhópum. Línan er: Eigum við ekki bara að vera á móti öllu ofbeldi? Jú, að sjálfsögðu erum við á móti öllu ofbeldi. Sama gerist í Bandaríkjunum þegar sett er á samfélagsmiðla #blacklivesmatter. Þá kemur heil flóðbylgja af fólki sem segir „all lives matter“, þ.e. öll mannslíf skipta máli, sem er vitaskuld satt. En það er grundvallarmunur á þessu. Þegar minni máttar hópar eða minnihlutahópar þurfa að fara að fá athygli vegna þeirra vandamála sem þeir þurfa að kljást við, og hafa þurft að gera árhundruðum saman, þá þarf einhvern veginn alltaf að fara að beina athyglinni að einhverju allt öðru. Það hlýtur að vera óþolandi, virðulegi forseti. Má ekki bara tala um stöðu hörundsdökks fólks í Bandaríkjunum og leysa það mál og einbeita sér að því og gera eitthvað í því? Má ekki bara tala um ofbeldi gegn konum og leysa það mál og gera eitthvað í því án þess að þurfa líka að fara að útvíkka hugtakið úti um allt? Með því er ekki gert lítið úr öðrum tegundum ofbeldis, en hvenær á að takast á við það? Ef ég er kýldur í magann eða andlitið niðri í bæ þá geri ég ráð fyrir að geta farið til lögreglunnar og ég býst við því að hún taki mig alvarlega, eftir atvikum, og að ég fái viðurkennt að brotið hafi verið á mér. Konur hafa þurft að búa við það frá upphafi siðmenningar, og sennilega lengur, að það sé á einhvern hátt sjálfsagt að koma fram við þær eins og einhvers konar eign. Eigum við ekki að tala um það, leysa það, klára það, hafa það á hreinu? Vegna þess að það varðar okkur öll.

Hv. þingmaður fór yfir innrætingu til barna í ræðu sinni áðan. Hann furðaði sig svolítið á því, ef ég skildi hann rétt, og aftur er ég að reyna að vera sanngjarn, hann hafði áhyggjur af því að verið væri að hræða en ekki fræða ung börn um ofbeldi og ekki ætti að ómaka þau í þeirra tiltölulega áhyggjulausa lífi með einhverju svona og vísaði þar til loftslagsumræðunnar og eineltisumræðu og þess háttar. Mér þótti það áhugaverður punktur og ég hef verið að velta þessu fyrir mér hérna í þingsalnum síðan. Ég er að reyna að vera sanngjarn, en ég fæ þetta ekki til að passa í hausnum á mér, þessar áhyggjur, nema með því hugarfari að þetta sé ekki svo mikið mál, að þetta sé bara ekki jafn stórt vandamál í samfélaginu og það er. Ég hef sömu skoðun á loftslagsumræðunni. Eina leiðin til að ég gæti einhvern veginn nálgast það að við séum að gera of mikið af því að fræða börn um loftslagsvána er með því að taka hana ekki það alvarlega. Ég næ ekki að koma þessu fyrir í hausnum á mér öðruvísi, virðulegi forseti. Kannski eru það mín mistök.

Þegar við ætlum að leysa mjög djúpstæð og rótgróin vandamál eins og viðhorf samfélagsins til ofbeldis, sér í lagi kynferðisofbeldis og fleiri atriða, þá er ekki nóg að setja bara reglur, lög og ferla. Það þarf líka hugarfarsbreytingu. Þess vegna þarf umræðu eins og þessa. Það þarf að vera einlægur vilji hvers og eins að líta á hlutina réttum augum. Við skilum ekki af okkur með því að ýta á græna takkann þegar þetta mál fer í gegn. Við skilum af okkur í okkar eigin lífi þegar við gerum athugasemdir þegar við verðum vör við ofbeldi, þegar við kennum börnunum okkar að þau eigi líkamann sinn, að þau geri við líkamann sinn það sem þeim sýnist, því að það er ekki sjálfsagt eins og greinilegt er. Það ætti að vera það en er það greinilega ekki. Hér væri hægt að fara mörgum orðum um hin ýmsu fróðlegu orð sem hafa fallið í samfélaginu í gegnum tíðina, en mér fannst ræða hv. þingmanns áðan endurspegla það að umræðunnar er þörf, ekki bara til að setja ferla, lög og þess háttar, eins mikilvægt og það allt saman er, heldur finnst mér að samfélagið þurfi einhvern veginn að gera upp fortíðina.

Þá finnst mér áhugavert þegar mál af þessu tagi eru stundum kölluð viðkvæm. Ef ég er kýldur í magann á Austurvelli klukkan þrjú aðfaranótt laugardags á fylliríi og fer til lögreglunnar er það ekki viðkvæmt mál, virðulegi forseti. Það er leiðinlegt, það er glatað, en það er ekki viðkvæmt. Ég var beittur ofbeldi og ég ætla að láta taka á því. Munurinn á fólki í þeim aðstæðum og fórnarlömbum kynferðisafbrota er að kynferðisafbrotafórnarlömb hafa í gegnum tíðina átt að venjast því að þau séu ekki tekin alvarlega. Séu þau tekin alvarlega þá gengur ekki að rannsaka málið og ef það gengur að rannsaka málið þá gengur ekki að dæma í því. Það er munurinn á því að taka á kynferðisofbeldi og öllu ofbeldi. Það er eins og munurinn á því að vera með dökka húð í Bandaríkjunum og vera með ljósa húð. Það er munur, virðulegi forseti, á þessum tveimur upplifunum, þessum tvenns konar aðstæðum, og við eigum að viðurkenna þann mun og vinna bug á þeim vandamálum sem spretta upp úr því að við erum manneskjur, og erum tiltölulega fordómafull sem dýrategund. Allt fólk er að mínu mati fordómafullt, það er bara misjafnlega vel að sér í að gera eitthvað í því, bæta upp fyrir það, koma til móts við það eða átta sig á því og þess háttar.

Eftir #metoo-byltinguna heyrðist mikið af kvörtunum í samfélaginu um að það mætti ekki reyna við neinn lengur. Það mætti ekkert lengur og þyrfti leyfi til alls. Það undirstrikar nákvæmlega hversu rótgróið þetta er í samfélaginu okkar. Margt vel meinandi fólk, þetta er ekki vont fólk, þetta er bara fólk, sér bókstaflega og beinlínis ekki muninn á því að reyna við einhvern og áreita einhvern. Það er auðvelt að hneykslast á þessu og segja bara: Þetta eru vitleysingar, við erum æðisleg vegna þess að við teljum eitthvað annað. Þetta er ekkert mál. Allir geta þetta. En það er erfitt að breyta viðhorfinu, þessu rótgróna, djúpstæða, ævaforna viðhorfi. Þegar allt kemur til alls er þetta viðhorf við spurningu um það hvernig einstaklingur lítur á annað fólk, hvað má gera og segja við aðra manneskju. Það er samtal sem ég held að sé mjög þarft á ýmsum sviðum. Ég held að í gegnum tíðina hafi íslensk menning verið skrýtin blanda af tilætlunarsemi til einstaklingsins en að sama skapi sá smákóngahugsunarháttur sem ég hugsa að flestir Íslendingar kannist nú við með einum eða öðrum hætti. Það er ákveðin hugmynd um að öðru fólki beri að gera eitthvað. Þessi manneskja á að gera þetta. Ef hún vill ekki gera það sem ég vil að hún geri, þá skuldar hún mér einhverjar skýringar á því. Þetta er ofboðslega ríkt í mannlegum samskiptum, sér í lagi ofbeldissamböndum, að heimta skýringar á einhverju sem þarfnast engra skýringa og það er það sem þarf að kenna börnum alveg strax, sem fyrst að mínu mati, en auðvitað með tilheyrandi sérfræðiþekkingu að vopni. Það er þessi grundvallarpunktur að við eigum okkur sjálf og við gerum við þetta sjálf það sem okkur, og einungis okkur sjálfum, sýnist. Það þarf alltaf að vera byggt á upplýstu samþykki.

Nú reyni ég að gera ekki bara ræðu hv. þingmanns að umræðuefni hérna en kemst þó ekki hjá því að nefna að hv. þingmaður bar þetta saman við loftslagsbreytingaumræðuna. Þá fór ég að velta fyrir mér tengingunni. Hún er sú að hv. þingmaður vildi meina að það væri verið að hræða börn með dómsdagsspám í loftslagsmálum. Vel má vera að eitthvað sé til í því, en svo leið á ræðuna og andsvörin og þá kom í ljós að hv. þingmaður efast um samhuginn sem birtist stundum á Alþingi, alla vega í kringum alla þá ógn, loftslagsvána. Þá fór það skyndilega að vera rökrétt, virðulegi forseti. Þá skil ég að maður hafi áhyggjur af því að verið sé að kenna of mikið. Það gerist ef maður tekur vandamálið ekki nógu alvarlega.

Ég held að það sé í rauninni ekkert mál að taka ofbeldi og kynferðisofbeldi ekki nógu alvarlega vegna þess að það er svo mikið ofbeldi sem er ekki sýnilegt fyrr en einhverjar hetjur stíga fram og segja frá því í nógu miklum mæli til að samfélagið geti ekki hunsað það lengur og það er það sem gerðist með #metoo-byltingunni. Að mínu mati snerist hún um miklu meira en kynferðisofbeldi. Hún snerist um þetta grundvallaratriði: Við eigum ekki að þegja yfir ofbeldi. Sömuleiðis sýndi hún að það krefst hugrekkis að segja frá því. Það eru félagslegar og jafnvel lagalegar afleiðingar af því. Sömuleiðis þarf fólk að geta búist við því að þegar á því er brotið hafi það einhverja réttarvernd og geti leitað eitthvert. Það þarf að hafa trú á því kerfi, lögreglunni, dómskerfinu, lögfræðingum og fjölmiðlamönnum. Það þarf að hafa trú á því að vandinn sé tekinn alvarlega. Þess vegna er verið að taka mjög jákvæð skref í dag, það er verið að taka þessi mál alvarlega, meira og meira með tímanum, sem er mjög jákvætt og mjög mikilvægt skref í þróun borgararéttinda og þess hvernig við lítum á réttindi einstaklinga. Sagan sýnir því miður að það er ekki sjálfsagt. Það er ekki meðfætt. Það þarf að ræða það og benda á það. Það þarf að kenna það á ungum aldri.

Ég vil að lokum ekki að það hljómi þannig að ég sé að gagnrýna málflutning hv. Miðflokks í heild, ég vil taka heils hugar undir ræðu hv. þm. Birgis Þórarinssonar sérstaklega. Hún var mjög góð að mínu mati. Það er ekki markmið mitt að gera lítið úr ræðu hv. þingmanns. Mér fannst hún bara bera þess merki að þörf væri á að ræða málið enn meira og opinskátt og svolítið út frá menningarlegum grundvallaratriðum en ekki bara lagatækni. Að því sögðu, virðulegur forseti, læt ég nefndarálitið að öðru leyti tala fyrir skoðunum mínum um málið í bili og lýk því máli mínu.