150. löggjafarþing — 112. fundur,  2. júní 2020.

forvarnir gegn kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi og áreitni, ásamt áætlun fyrir árin 2021-2025.

643. mál
[16:35]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er ágætt að heyra að hv. þingmaður telur svo geta verið að hlutgerving fatlaðra kvenna og niðrandi tal í þeirra garð geti átt þátt í því að auka á þetta varnarleysi, eins og hann kom inn á í fyrra andsvari sínu.

Ég hjó líka eftir því í ræðu hv. þingmanns að hann sagði, með leyfi forseta: Hver og einn einstaklingur skal taka ábyrgð á sjálfum sér. Sömuleiðis vísaði hann í þá ágætu reglu sem Eistnaflug hefur lengi haft: Ekki vera fáviti.

Ég vil því spyrja hv. þingmann hversu vel hann telur flokk sinn og samflokksmenn sína virða þá reglu með tilliti til Klaustursmálsins svokallaða og þeirra niðrandi ummæla sem féllu um fatlaðar konur sérstaklega á þeim fundi og framkomuna þar á eftir, hvort hv. þingmenn Miðflokksins hafi tekið ábyrgð á sjálfum sér og ákveðið að vera ekki fávitar.