150. löggjafarþing — 112. fundur,  2. júní 2020.

varnir gegn hagsmunaárekstrum hjá æðstu handhöfum framkvæmdarvalds í Stjórnarráði Íslands.

523. mál
[17:07]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir að mæla fyrir þessu nefndaráliti og fara með okkur í gegnum það. Það eru nokkrar spurningar sem vakna og ég hugsa að ég hafi ekki tíma til að spyrja þeirra allra. En mig langar að spyrja hv. þingmann: Í 3. gr. er talað um aukastörf og taldar upp nokkrar atvinnugreinar sem virðast einhvern veginn njóta meiri velvildar, hjá þeim sem skrifa frumvarpið eða ætla að samþykkja það, en aðrar atvinnugreinar. Hvers vegna eru þessar atvinnugreinar taldar upp, mannúðarstörf, kennslu- og fræðistörf, vísindarannsóknir? Hvers vegna ekki trésmiðir eða lögfræðingar eða eitthvað slíkt? Ég sé ekki alveg greinarmun vegna þess að allir þessir aðilar geta auðveldlega verið með hagsmunaverði á sínum snærum, svo að við nefnum það nú bara. Hvers vegna eru þessi störf sérstaklega talin upp?

Síðan langar mig líka að spyrja þingmanninn út í 5. gr.: Ef einhver sem hverfur úr starfi er með þriggja mánaða uppsagnarfrest hjá ríkinu, hefur unnið það stutt, á hann þá samt sem áður rétt á því að fara á þessa sex mánaða greiðslur, ef til þess kemur?