150. löggjafarþing — 112. fundur,  2. júní 2020.

varnir gegn hagsmunaárekstrum hjá æðstu handhöfum framkvæmdarvalds í Stjórnarráði Íslands.

523. mál
[17:12]
Horfa

Sigríður Á. Andersen (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Mig langar að spyrja hv. framsögumann um hvort rædd hafi verið við meðferð málsins í nefndinni sú reynsla sem komin er á ýmsar reglur og lög sem sett hafa verið, sem eru í rauninni sambærilegar þessum. Ég nefni t.d. löggjöf sem sett var árið 2011 um ný lög um Stjórnarráð Íslands þar sem kveðið er á um ýmislegt sem átti að vera til þess fallið að auka gagnsæi og traust almennings á þeirri vinnu sem fram fer í Stjórnarráðinu. Ég nefni líka valfrjálsrar reglur sem settar voru 2018, í tíð þessarar ríkisstjórnar, um skráningu hagsmuna aðstoðarmanna og ráðuneytisstjóra, sem virðist vera mestur áhugi á að ræða. Mér finnst vanta umfjöllun í frumvarpinu og í nefndarálitinu sem hér liggur fyrir, um reynsluna í þessum efnum og hver hin brýna nauðsyn sé til þess frumvarps sem hér liggur fyrir.