150. löggjafarþing — 112. fundur,  2. júní 2020.

varnir gegn hagsmunaárekstrum hjá æðstu handhöfum framkvæmdarvalds í Stjórnarráði Íslands.

523. mál
[18:22]
Horfa

Sigríður Á. Andersen (S):

Virðulegur forseti. Það er margt í þessu frumvarpi sem verðskuldar nokkra umfjöllun og að mínu mati meiri umfjöllun en mér virðist að hafi verið veitt í meðförum málsins í nefndinni, ef marka má nefndarálit frá bæði meiri hluta og minni hluta. Eins og reglur kveða á um er rætt um tilefni og nauðsyn lagasetningar í greinargerð með frumvarpinu, en þó hef ég velt því fyrir mér hver nauðsynin sé á málinu eins og það er lagt fram hér, einkum og sér í lagi í ljósi þeirra miklu breytinga á reglum og framkvæmd við skráningu hagsmuna sem orðið hafa undanfarin ár innan Stjórnarráðsins, í stjórnsýslunni allri og svo sem líka á Alþingi. Reglur um skráningu hagsmuna t.d. alþingismanna hafa líka tekið breytingum.

Hér er um að ræða frumvarp til laga um varnir gegn hagsmunaárekstrum hjá æðstu handhöfum framkvæmdarvaldsins. Ég tek undir það sem fram kemur í nefndaráliti meiri hlutans um þær breytingartillögur sem gerðar eru á orðalagi, að í stað handhafa framkvæmdarvaldsins sé talað um æðstu stjórnendur, af því að hér er verið að vísa til fleiri en ráðherra — en ráðherra er einn æðsti handhafi framkvæmdarvaldsins — þ.e. verið er að vísa til ráðuneytisstjóra, skrifstofustjóra, einhverra hluta vegna sendiherra í Stjórnarráði Íslands, og þá er frumvarpinu líka ætlað að ná til aðstoðarmanna ráðherra. Ég nefni að það eru nýjar reglur, ný lög um Stjórnarráðið frá árinu 2011 sem eru að nokkru leyti enn í mótun, þ.e. framkvæmd á grundvelli þeirra. Gerð var mikil breyting á reglum er lúta að gagnsæi á þeim tíma, árið 2011. Með hinum nýju lögum var markmiðið að auka traust almennings til stjórnsýslunnar í Stjórnarráðinu. Þar var kveðið á um t.d. auglýsingaskyldu embætta og fleiri atriði. Þá hafa verið settar reglur á þessu kjörtímabili um valkvæða skráningu hagsmuna ráðuneytisstjóra og aðstoðarmanna. Mér finnst í raun vanta umfjöllun í frumvarpið sjálft, og þá líka í nefndarálit meiri hlutans, um hvernig þær reglur hafa reynst á undanförnum árum. Það væri fróðlegt að vita hvernig hin valkvæða skráning ráðuneytisstjóra og aðstoðarmanna hefur orðið, hvort menn hafa hlýtt henni eða ekki. Ég hef grun um að flestir ráðuneytisstjórar hafi tekið þátt í að skrá hagsmuni sína og aðstoðarmenn líka, þrátt fyrir að það séu, og ættu að vera, mismunandi sjónarmið er lúta að aðstoðarmönnum eða ráðuneytisstjórum og öðrum embættismönnum. Ég kem að því seinna.

Eins og mörg frumvörp sem lögð eru fram af góðum hug þeirra sem vilja auka gagnsæi og traust, finnst mér þetta frumvarp vera því marki brennt að það er eins og frumvarpshöfundar hafi ofurtrú á reglum og telji að skrásetning slíkra reglna sé grundvöllur þess að menn hegði sér eins og best verður á kosið. Og það má heldur ekki gleyma því í þessu að í gildi eru t.d. stjórnsýslulög, bæði skráðar reglur stjórnsýslulaga og óskráðar reglur þeirra. Það er því ekki um það að ræða, eins og gjarnan vill verða í umræðu um þessi mál, að ekki gildi neinar reglur um hagsmunaárekstra í Stjórnarráðinu nú þegar, vegna þess að um það eru auðvitað reglur sem menn hafa hingað til reynt að fara eftir eftir bestu getu, ég veit ekki betur. Það hefði þess vegna verið áhugavert að fá umfjöllun um það hvernig þær reglur hafa reynst, eins og t.d. breytingin á stjórnarráðslögunum í tíð vinstri stjórnarinnar 2011, þar sem markmiðið var að auka gagnsæi. Þar var t.d. sérákvæði um ráðuneytisstjóra, settar voru reglur um auglýsingaskyldu til þess að tryggja að embætti ráðuneytisstjóra yrði alltaf auglýst nema ef um flutning embættismanna innan Stjórnarráðsins væri að ræða. Maður veltir því fyrir sér hvernig þeirri reglu hafi verið fylgt, af því að maður tekur eftir því að nýlega hafa tveir ráðuneytisstjórar verði skipaðir innan Stjórnarráðsins án auglýsingar og án þess að um hafi verið að ræða flutning embættismanna innan Stjórnarráðsins. Þó liggja skýrar reglur fyrir um það og heitstrengingar frá tíð vinstri ríkisstjórnarinnar og þáverandi forsætisráðherra, Jóhönnu Sigurðardóttur, um að auglýsa skyldi slík embætti.

Við höfum líka séð dæmi þess að skipað hefur verið í embætti innan ráðuneyta án auglýsingar, upplýsingafulltrúar ráðuneyta skipaðir án auglýsingar. Við þekkjum það frá gamalli tíð og löng venja hefur verið fyrir því að menn setji í stöður tímabundið til að komast hjá auglýsingaskyldu. En reglurnar um það eru alveg sérstakar. Þá þekkjum við eftir langa reynslu alls kyns sérverkefni sem komið er á laggirnar og falin eru einstaklingum án auglýsingar, tímabundin verkefni. Auðvitað er þá vísað til þess að þau eru tímabundin. Við höfum líka séð nýleg dæmi um að aðstoðarmenn ráðherra hafi sagt sig frá slíkum verkefnum en strax í kjölfarið verið ráðnir inn í ráðuneytin án auglýsingar. Allt er það nýleg reynsla þrátt fyrir skýrar reglur þar að lútandi. Það hefði verið ágætt að fá aðeins umfjöllun um það hvaða reynsla er af þeim reglum sem í gildi eru, hvort það sé í rauninni tímabært að fara að leggja fram frumvarp og setja reglur um það sem hér er kveðið á um ef ekki gengur betur en ég hef verið að lýsa að fylgja þeim reglum sem þegar eru fyrir hendi.

Annað dæmi sem manni dettur í hug er að hér falla endalaust úrskurðir kærunefndar jafnréttismála um s að ráðherra og jafnvel aðrir embættismenn hafi ekki farið að lögum um jafnan hlut kynjanna við skipun í embætti eða ráðningar, aðallega skipun. Nýlegt dæmi er frá því í dag. Það gerist á sama tíma og aldrei hafa verið fleiri jafnréttisfulltrúar innan Stjórnarráðsins, og þeir hafa jafnvel verið ráðnir til verka án auglýsingar. Ég heyrði að hæstv. forsætisráðherra taldi að nýjasta dæmið ætti að leiða til þess að menn reyndu að gera betur og ég er svo sem sammála því. Ef vandinn er sá að mönnum hafi orðið á þá er rétta leiðin að reyna að gera betur. Hún nefndi líka að rýna þyrfti betur úrskurðina og leggja vinnu í að fara yfir þá. Eins og ég nefndi hafa jafnréttisfulltrúarnir og þeir sem hafa það verkefni undir höndum aldrei verið fleiri, en ekkert gengur eða rekur. Þannig að spurningin er alltaf sú: Getur verið að það sé eitthvað að reglunum sjálfum, þeim reglum sem leiða til þessara endalausu brota? Kann að vera að menn þurfi að endurskoða aðeins markmið laga, og sjónarmið þar að lútandi, sem endalaust virðast vera að þvælast fyrir mönnum? Það kann að vera að eitthvað sé að reglunum frekar en mönnunum sjálfum sem eftir þeim fara. Það er sá vinkill sem ég vil nefna hvað þetta mál varðar líka, að menn þurfa aðeins að setja það niður fyrir sér hver nauðsynin er á þessum reglum og hvert markmiðið er.

Í umræðum á undan mér og í andsvörum við hv. framsögumann heyrði ég að mönnum liggur mikið á hjarta þegar kemur að aðstoðarmönnum ráðherra. Mér finnst af umræðunni að það kunni að vera þannig að menn misskilji hreinlega hlutverk og eðli aðstoðarmanna ráðherra. Menn hafa svolítið talað um í þessari umræðu að aðstoðarmenn séu þeir sem valdið hafa með einhverjum hætti og það sé mjög mikilvægt að setja sömu reglur um ráðherra og aðstoðarmenn þeirra. Mér finnst sérstaklega athyglisvert að sjá að gert er ráð fyrir að upplýsingar um ráðherra séu birtar í hagsmunaskráningu, það eru svo sem eðlilegar upplýsingar um fyrri störf, og hvort menn séu einhverjum háðir fjárhagslega að öðru leyti. Það er auðvitað sjálfsagt, enda er það birt nú þegar. Það er ekkert nýtt í því. En hér er því bætt við að það sama gildi um ráðuneytisstjóra og skrifstofustjóra og einhverra hluta vegna sendiherra. Umræðan um sendiherrana er sama marki brennd. Hvaða völd hafa sendiherrar? Þeir hafa engin völd. Svo gerir frumvarpið ráð fyrir því að upplýsingar um ráðherra séu birtar en ekki upplýsingarnar um skrifstofustjóra, sendiherra, aðstoðarmenn og ráðuneytisstjóra.

Í nefndaráliti meiri hluta nefndarinnar er lagt til að breyting verði á frumvarpinu að því leyti þannig að upplýsingar um aðstoðarmenn verði birtar með sama hætti og um ráðherra. Hér finnst mér vanta algjörlega umfjöllun um að hvaða leyti aðstoðarmenn eru undir sömu sök seldir og ráðherrar. Það er svo sem gerð ágæt grein fyrir eðli aðstoðarmanna í nefndaráliti meiri hlutans, en dregin er kolröng ályktun af þeirri umfjöllun. Þar er því lýst að aðstoðarmenn séu pólitískt ráðnir, að ráðherra beri ábyrgð á aðstoðarmanni sínum. Einmitt þau sjónarmið ættu að leiða til þess að um aðstoðarmenn giltu aðrar reglur en um ráðherrann sjálfan. Aðstoðarmaður kemur inn tímabundið. Hann hefur trúnaðarskyldu við ráðherrann, ekki við ráðuneytið eða starfsmenn ráðuneyta, heldur við ráðherrann og það er ráðherrann sem ber ábyrgð á aðstoðarmönnum.

Að sama skapi velti ég fyrir mér að ef markmiðið er að auka gagnsæi og réttaröryggi borgaranna í þessu landi með auknu gagnsæi og auka traust og tiltrú þeirra á stjórnsýslunni, af hverju eru þá undanskildar upplýsingarnar um hagsmunaárekstra skrifstofustjóra og ráðuneytisstjóra og jafnvel þeirra starfsmanna á plani, ef ég má orða það þannig, sem taka raunverulega ákvarðanirnar, sem kveða upp úrskurði, þessa faglegu úrskurði? Það eru þeir sem kveða upp úr um réttindi og skyldur borgara í samskiptum borgaranna við ráðuneytið alla jafna. Það finnst mér stangast á, það er ekki alveg skýrt hvert markmiðið er. Ef markmiðið er að auka réttaröryggi borgaranna held ég að frumvarpið mætti alveg við meiri umræðu að því leyti.

Hér er líka talað um hagsmunaverði og menn hafa vísað til þess. Hv. framsögumaður vísaði einmitt til reglna í Bandaríkjunum og virðist lenskan er núna, menn hika ekki við að taka upp reglur sem settar eru í Bandaríkjunum. Menn horfa fyrst og fremst til Bandaríkjanna. Það er sama hvort það er um lokun landamæra eða ekki, eftir að hafa hlegið í kannski fimm sekúndur eru menn fljótir að taka upp reglur þaðan. Menn hafa þekkt þessar reglur í áratugi. Það eru mjög víðtækar reglur um skipulag svokallaðra hagsmunavarða í Bandaríkjunum. En þar er hins vegar allt öðruvísi kerfi en hér á Íslandi. Ég þekki ekki hvernig það er í Evrópu, en kannski svipar íslenska kerfinu til þess sem er í Evrópu. Í Bandaríkjunum er allt öðruvísi umhverfi um hagsmunaverði. Þar eru þeir jafnvel með skrifstofur í þinghúsinu og þar fram eftir götunum. Þannig að mér finnst menn eltast óþarflega mikið við bandarískt fyrirkomulag með því að setja svona reglur í okkar litla samfélagi, a.m.k. án frekari skoðunar hér á landi. Það er einmitt mál af því tagi þar sem maður spyr: Bíddu, hefur verið eitthvert vandamál hingað til í þessum efnum? Ég man reyndar eftir einu máli úr tíð vinstri stjórnarinnar, frumvarpi um íblöndun í eldsneyti sem samið var af hagsmunaaðila. Það kom í ljós og voru birtar fréttir af því að það var samið af hagsmunaaðila í greininni. Það er ekki nokkrum ráðherra eða ráðuneyti sæmandi að leggja slíkt fram, en reglurnar í dag, sem eru nú þegar til staðar og voru jafnvel þá þegar frumvarpið var samið, eiga að girða fyrir þetta, kveða á um aðkomu þeirra sem koma að samningu frumvarpa, í greinargerð með frumvarpi og þar fram eftir götunum.

Ég tek reyndar eftir því í því tiltekna frumvarpi sem hér liggur fyrir að þar er vísað í starfshóp forsætisráðherra sem skilaði af sér í september 2018, án þess að tilgreint sé hverjir sátu í þeim hópi. Það hefði verið í þágu gagnsæis og til þess að auka tiltrú einhverra, kannski minnka hana af hálfu annarra, að tilgreina hverjir sátu í þessum starfshópi, hvort þeir hafi átt einhverra hagsmuna að gæta í þeim starfshópi sem skilaði tillögum um löggjöf af því tagi sem hér liggur fyrir.

Virðulegur forseti. Markmiðið er göfugt. Ég tek undir það að menn eiga að hafa sem mest gagnsæi í allri sinni vinnu í stjórnsýslunni og Stjórnarráðinu. Ég verð hins vegar að segja að mér hefur ekki þótt það vera stórkostlegt vandamál hingað til þótt auðvitað hljóti að vera pottur brotinn í þeim efnum eins og öðrum. Ég vek athygli á því að hér er ekki kveðið á um nein viðurlög við þessu broti, t.d. á því ef menn eiga fund með einhverjum hagsmunaverði. En auknar reglur og kröfur um einhverja skrásetningu geta flækt málið og einfaldlega orðið til þess að þæfa mál eða gera mönnum jafnvel erfiðara fyrir að taka ákvarðanir. Menn festast oft í aukaatriðum í þessu. Og hvað hagsmunaverði varðar finnst mér t.d. einkar óskýrt hverjir eru raunverulega hagsmunaverðir. Það finnst mér þurfa að koma til meiri skoðunar. Ég held að mál sem þetta hefði þolað frekari umræðu, ekki bara í þinginu heldur einnig áður en það kom til þingsins. Hafi forsætisráðherra hug á þessum reglum þá held ég að það væri til velfarnaðar fallið að taka málið til frekari umfjöllunar á þeim vettvangi, ekki nema nefndin taki málið aftur til sín og skoði eitthvað enn frekar í þessum efnum.

Virðulegur forseti. Í stuttu máli finnst mér menn festa sig í aukaatriðum með þessu frumvarpi, festa sig í að setja reglur um eitthvað sem engu máli skiptir, leggja áherslu á aðstoðarmenn sem engin völd hafa, hvað þá sendiherrar. Ég vil varla segja það, en ég hef á tilfinningunni að texti af þessu tagi og áform um lagasetningu að þessu leyti stjórnist af einhvers konar misskilningi, (Forseti hringir.) ég ætla ekki segja öfund, en einhvers konar misskilningi á eðli tiltekinna starfa í stjórnsýslunni og Stjórnarráðinu.