150. löggjafarþing — 113. fundur,  3. júní 2020.

störf þingsins.

[15:15]
Horfa

Silja Dögg Gunnarsdóttir (F):

Herra forseti. Með því að halda fjarfundi á Covid-tímum hefur þingnefndum verið gert mögulegt að starfa nær óslitið. Hið sama gildir um alþjóðanefndir Alþingis. Hnökrar hafa þó verið á einstökum fundum. Stundum má rekja orsök hnökranna til kerfisins sem notað er en oftar en ekki má rekja það til þess að búnaður notenda er ekki nægilega góður, menn nota ekki heyrnartól, eru ekki í réttum vafra, netsamband er lélegt o.s.frv. Það hefur einnig komið fyrir að einstök þjóðþing eða ráðuneyti megi ekki af öryggisástæðum nota ákveðin kerfi, sem veldur vandkvæðum.

Niðurstaðan er því að við þurfum að gera betur hvað varðar leiðbeiningar og þjálfun þingmanna og starfsmanna Alþingis og Stjórnarráðsins í notkun fjarfundabúnaðar og að samræma enn betur á milli a.m.k. ráðuneyta og Alþingis hvaða kerfi eru notuð. Með fjarfundum má spara tíma, mikla fjármuni og fækka kolefnasporum, en ekki síst gera stjórnsýsluna aðgengilegri fyrir þá sem búa fjarri höfuðborgarsvæðinu.

Sú sem hér stendur lagði fram þingsályktunartillögu á haustþingi 2017 um að forsætisráðherra yrði falið að innleiða verklagsreglur um fjarfundi fyrir ráðuneyti Stjórnarráðsins. Samkvæmt skýrslu forsætisráðherra, sem lögð var fram á þessu þingi, um ályktanir Alþingis, kemur fram að gert er ráð fyrir átaki í fjárfestingu á fjarfundabúnaði í ráðuneytum, þjálfun starfsmanna í notkun hans og að verklag verði þróað þar sem ráðuneytin setji sér m.a. markmið um aukið hlutfall fjarfunda. Í skýrslunni kemur einnig fram að fjarfundabúnaður sé í öllum ráðuneytum sem og leiðbeiningar. Loftslagsfulltrúar ráðuneyta eigi að tryggja innleiðingu og að undirstofnanir taki upp sama verklag.

Heyra má að margt hefur verið gert á vettvangi Stjórnarráðsins í þessum efnum og á Alþingi. Ég veit að forsætisnefnd er með málið til umfjöllunar og frekari skoðunar. En það eru svo sannarlega tækifæri til að gera enn betur. Fjarfundir eru örugglega komnir til að vera og verða að vera valkostur áfram þegar þörf krefur, ekki síst fyrir þá þingmenn sem langt hafa sækja og þurfa að komast heim til sín um helgar, eða reyna það alla vega, þannig að þetta sé raunhæfur valkostur og lítið mál að framkvæma.