150. löggjafarþing — 113. fundur,  3. júní 2020.

þingsköp Alþingis.

840. mál
[16:32]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil taka undir það sem hæstv. ráðherra sagði, þetta hefur verið samtal á milli formanna flokkanna og ákveðinn rammi er kominn utan um þetta. Ég vil draga það skýrt fram að stjórnarandstaðan lagði ríka áherslu á það að við erum alltaf tilbúin til að mæta í þingið, líka eftir 25. júní, ef um er að ræða brýn Covid-mál, ég vil undirstrika það. Ég vil líka draga það fram að ég er ekkert hrifin af því að fresta þinginu til 1. október og hélt því til haga. Mér finnst þær forsendur að vinna þurfi betur og meira í fjárlögum ekki hafa verið settar nægilega skýrt fram þó að ég virði mjög vel það sem ráðherrar hafa sagt. Ég bendi á, eins og hér hefur komið fram, að annars staðar í Evrópu er um að ræða nákvæmlega sömu aðstoð, til að mynda í þeim löndum sem við berum okkur saman við, mál sem geta alveg verið sambærileg. Það er margt sem er ekki endilega samanburðarhæft en margt sem er mjög sambærilegt og það er ekki verið að fresta fjárlagagerð í Noregi, Danmörku og Svíþjóð svo að nefnd séu dæmi. (Forseti hringir.) Ég kaupi því ekki alveg þessi rök. Ég spyr hæstv. ráðherra hvort hún sjái það fyrir sér að þingið verði kallað saman milli 4. september og 1. október komi til þess að fram verði lögð brýn Covid-mál.