150. löggjafarþing — 113. fundur,  3. júní 2020.

opinber fjármál.

842. mál
[17:16]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er á nákvæmlega af þessum ástæðum sem ríkisstjórnin á að taka frumkvæðið. Stjórnvöld eiga að hafa frumkvæði að því að leggja þann grundvöll sem aðrir geta byggt á. Ekki bíða eftir því að einhverjir aðrir leysi vandamálið því að það er einfaldlega ríkisvaldið sem hefur það svigrúm að geta brugðist við í svona aðstæðum. Það að skila auðu í hálft ár í mesta óvissuástandi sem við höfum upplifað á síðari tímum, eins og það hefur verið orðað, finnst mér vera forkastanlegt, bæði út frá almennri skynsemi og út frá lögum um opinber fjármál. Þar eru grunngildin sem á að framfylgja, um gagnsæi, þar sem þingið á að hafa eftirlit með notkun á fjárheimildum sem framkvæmdarvaldið hefur úr að spila.

Þegar það er engin stefna, þegar fjárlög 2020 er í algjöru uppnámi líka, er eftirlitshlutverkið á sama tíma dautt. Það er nokkuð sem þingið má ekki láta gerast. Ríkisstjórninni finnst það alveg frábært, að sjálfsögðu, að geta haft tóman tékka til þess að geta gert hvað sem er án þess að hafa nokkra stefnu til að svara fyrir það á móti. Þingið getur þá spurt: Af hverju gerðuð þið þetta svona? Og svarið þarf ekki að vera neitt nema bara: Af því bara, af því að það er ekki nein stefna þar að baki. Það er engin ábyrgð, ekki neitt. Þess vegna á ríkisstjórnin að leggja fram stefnu. Já, þó að það sé óvissuástand og sérstaklega af því að það er óvissuástand. Þetta finnst mér mjög alvarlegt í stóra samhenginu. Ef öðrum finnst það ekki alvarlegt þá erum við í meiri vandræðum en ég gerði mér grein fyrir.