150. löggjafarþing — 114. fundur,  8. júní 2020.

atkvæðagreiðsla með yfirlýsingu, svör við fyrirspurnum.

[15:26]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Virðulegur forseti. Ég vil taka undir orð margra þeirra þingmanna sem hafa komið hér upp og gagnrýnt það hversu seinir ráðherrar eru til svara. Í þessu samhengi langaði mig til að nefna þrjár fyrirspurnir af fjórum sem ég hef lagt fram á þessu þingi til skriflegs svars. Þetta eru ekki alltaf efnislega flóknar spurningar. Ég spurði hæstv. fjármálaráðherra 21. janúar, fyrir rúmum fjórum mánuðum, hvort lögð hefði verið fram ný kostnaðaráætlun eða uppfærð kostnaðaráætlun fyrir nýja Landspítalann, ég spurði menntamálaráðherra 4. febrúar um heildaruppgjör kostnaðar við framkvæmdir við Hörpu og svo mætti lengi telja. Það að svona einfaldar spurningar taki þrjá til fjóra mánuði getur varla skýrst af einhverjum raðfyrirspurnum hv. þm. Björns Levís Gunnarssonar sem rata oftast í fjölmiðlaumræðu af þeim fyrirspurnum sem þingmenn leggja fyrir ráðherra.