150. löggjafarþing — 114. fundur,  8. júní 2020.

breyttar reglur um móttöku ferðamanna.

[15:45]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Þetta voru allnokkrar spurningar. Ég vil í tilefni af því fagna því sérstaklega að mér hefur verið boðið á fund hv. velferðarnefndar til að ræða þessi mál og þar mun ég hafa mér til fulltingis sóttvarnalækni til að svara um einstök útfærsluatriði. En svo ég haldi mig við stóru línurnar í spurningu hv. þingmanns þá miðar verkefnið við að greiningargetan sé 2.000 sýni á sólarhring. Það þýðir heildarumfang sýna sem verða tekin og greind, þar með talin þau sýni sem koma með Norrænu eða um önnur hlið inn í landið. Við höfum hins vegar verið með til skoðunar möguleika á því að Sjúkrahúsið á Akureyri komi að greiningu að einhverju leyti, það er til skoðunar. En það er algerlega ljóst að við þurfum, á meðan við erum að stíga fyrstu skrefin í þessu mjög svo flókna verkefni, að svara sumum af þessum spurningum jafnóðum og verkefninu vindur fram, ekki síst að því er varðar utanumhaldið í stóru myndinni. Og af því að hv. þingmaður spyr sérstaklega um heilbrigðiskerfið að öðru leyti, þá erum við að tala um mönnun og aðstöðu og annað slíkt, þurfum við auðvitað áfram að hafa burði til að taka sýni úr fólki með einkenni, ef kemur til þess að fólk fái einfaldlega Covid-einkenni, þá séum við með burði til þess að greina það fólk.

Ég vil líka greina frá því hér að við gerum ráð fyrir því að fjármagna uppbyggingu og tækjavæðingu veirufræðideildar þannig að hún standi undir aukinni greiningargetu. Það hefur komið fram í úttekt almannavarna að það er sérstakt áhyggjuefni að skortur á greiningargetu veirufræðideildar er flöskuháls í sjálfu sér í almannavarnaástandi þegar faraldur er. Við það verður náttúrlega ekki unað og það snýst ekki bara um glímuna við Covid-19 heldur aðrar bylgjur í framtíðinni þar sem við glímum mögulega við aðra sjúkdóma.