150. löggjafarþing — 114. fundur,  8. júní 2020.

Menntasjóður námsmanna.

329. mál
[16:37]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta allsh.- og menntmn. (Helgi Hrafn Gunnarsson) (P):

Virðulegi forseti. Ég kynni hér afskaplega einfalda breytingartillögu sem ég lagði fram við 2. umr., að fella brott 26. gr. frumvarpsins. Fyrst vil ég samt fagna því að meiri hlutinn hafi gert einhverjar breytingar milli 2. og 3. umr., sér í lagi þá sem var bent á af hálfu þess sem hér stendur, að þrengja 12. gr., sem fjallar um skyldu ríkisskattstjóra til að afhenda upplýsingar, þannig að hún yrði skýrari og félli betur að starfsemi ríkisskattstjóra. Starfsemi hans felur ekki almennt í sér túlkun á framkvæmd laga um Menntasjóð. Það er gott að ákvæðið var þrengt og gert skýrara þannig að þeir aðilar sem fá á sig þá skyldu að veita upplýsingar geti sinnt starfi sínu án þess að þurfa að vera í vafa um til hvers sé ætlast af þeim eða að þurfa að fara í einhverjar lagatúlkunarvinnu til að komast að því hvernig eigi að bregðast við beiðnum um upplýsingar hverju sinni. Það er mjög jákvætt og ég fagna því.

Sömuleiðis tel ég breytingu á 7. mgr. 30. gr. frumvarpsins skynsamlega. Ég læt nefndarálit meiri hlutans tala fyrir sig í þeim efnum. Síðast en ekki síst er auðvitað skynsamlegt að niðurstöður endurskoðunar á lögunum liggi fyrir árið 2023 en ekki 2026.

Þá vík ég að 26. gr. Ég hef lagt fram aftur breytingartillögu þess efnis að hún falli brott. Í umsögn Hagsmunasamtaka heimilanna var bent á það, og við nánari grennslan kom það í ljós, að Lánasjóður íslenskra námsmanna hefur verið að sækja lán sem hafa gjaldfallið til fólks sem hefur farið í gjaldþrot. Í kjölfar laga sem voru sett eftir hrun 2010, ef ég man rétt, hefur LÍN átt erfiðara með þetta og hefur verið að sækja þessi mál en tapað þeim í Hæstarétti. Forsendurnar sem LÍN hefur notað eru að LÍN hafi sérstaka hagsmuni. Það er nefnilega hægt að rjúfa fyrningarfrest, eins og það heitir, ef lánveitandi geti sýnt fram á að hann hafi sérstaka hagsmuni af því að viðkomandi, sem hefur farið í gjaldþrot og lánin eru að fyrnast, njóti ekki ávaxta þess fyrningarfrests. En LÍN hefur verið að tapa þeim málum. Því er það væntanlega komið inn í frumvarpið, í 26. gr., að LÍN mun geta þegar þetta verður samþykkt sótt þessi lán til þeirra sem hafa lent í gjaldþroti.

Við 2. umr. var lagt til að þessi grein yrði felld brott. Við nánari skoðun í óformlegri kantinum milli mín og hv. framsögumanns, Silju Daggar Gunnarsdóttur, áttum við samtal við ráðuneytið um þetta. Kom þar ýmislegt fram, ekkert sem kom á óvart. En síðan var hugsunin sú að ég myndi kalla þessa breytingartillögu til baka og þetta yrði rætt í allsherjar- og menntamálanefnd á milli 2. og 3. umr. Ég kallaði tillöguna til baka og bjóst við því að hún yrði rædd í allsherjar- og menntamálanefnd en ég verð að viðurkenna, þrátt fyrir ágæta viðleitni hv. framsögumanns, sem ég kann að meta, að það olli mér vonbrigðum hvernig nefndin tók á því eða öllu heldur tók ekki á því. Við héldum tvo fundi, ekkert illt að segja um annan þeirra, á hinum tókum við fyrir áhyggjur frá einum aðila málsins og allt í góðu með það. En svo gátum við ekki farið að ræða 26. gr., sem ég hafði lagt til að yrði felld brott, fyrr en fundartímanum var lokið og hv. formaður farinn að ýta mjög mikið á að allir styttu mál sitt og við færum að ljúka fundi. Það er auðvitað formannsins von og vísa og skylda sem formaður, en þarna vorum við komin í algjöra tímaþröng, ekki bara tímaþröng, tíminn var búinn og fólk var næstum því farið að tínast út af fundinum þegar átti að fara að ræða þetta. Þá kom í ljós að við ætluðum ekki að ræða neitt efnislega mikið um þetta atriði sem nefnd heldur hefði meiri hlutinn þar áður fundað um það og komist að þeirri niðurstöðu að hann ætlaði að halda greininni inni.

Ég hafði ímyndað mér að við myndum ræða þetta öll saman og komast að sameiginlegri niðurstöðu sem nefnd. Það var frekar þannig að meiri hlutinn kynnti niðurstöðu sem hann var þegar búinn að komast að.

Þetta þykir mér miður. Mér finnst þetta vera einkenni þess hvernig þetta mál fær ekki þann tíma og þá alúð sem það ætti að fá, að mínu mati. Ég átta mig á því að sumir hv. þingmenn eru ósammála mér um það vegna þess að málið var lagt fram á sínum tíma og hefur verið í þinginu í einhvern tíma og þess háttar. Ég bendi samt á að lengi vel var ekkert rætt um málið í allsherjar- og menntamálanefnd, m.a. vegna Covid-ástandsins og önnur mál voru í forgangi, en það er ekki tíminn sem mál liggur fyrir einhvers staðar í skjölum þingsins sem bætir það heldur það þegar við vinnum í því. Ég efast ekki í eina sekúndu um að hv. framsögumaður og aðrir þingmenn meiri hlutans hafi unnið heilmikið í málinu en ekki með minni hlutanum umfram þá nefndarfundi sem hafa verið haldnir í hv. allsherjar- og menntamálanefnd. Við þá málsmeðferð alla finnst mér á hverjum einasta tímapunkti alveg skýrt að þetta mál hefði mjög gott af nánari umræðu.

Ég get skilið sjónarmið meiri hlutans fyrir því að halda 26. gr. inni. Það kemur fram í greinargerð frumvarpsins, reyndar er blæbrigðamunur á skýringum sem maður hefur heyrt annars staðar frá, en eftir stendur að það sem ég sé í þessu er að LÍN var að tapa málum, LÍN hafði aðgang að ráðuneytinu við samningu þessa frumvarps og gat komið þessu þar inn. Þeir skuldarar sem hafa verið sóttir hingað til höfðu ekki þann kost. Þeir voru ekki í stöðu lánasjóðsins að hafa aðgang að ráðuneytinu og gátu ekki bara beðið um að settar væru inn klausur inn í frumvörp sem síðan verða að lögum. Þarna er mikill munur á aðstöðu sem mér finnst leitt að sjá nýttan með þessum hætti.

Rökin fyrir Hæstarétti í þessum málum hafa verið þau að LÍN hafi sérstaka hagsmuni. Þeir sérstöku hagsmunir eru notaðir sem rökstuðningur í frumvarpinu eins og það liggur fyrir. Þeim rökstuðningi hefur verið hafnað af Hæstarétti. Þau rök standast ekki.

Minn skilningur á stjórnarskrá er ekki betri en sá að ég tel þetta uppfylla stjórnarskrá. En það breytir því ekki hvað liggur að baki því sem við erum að gera. Við erum að setja inn ákvæði sem er gert til þess að bregðast við því að einhver aðili tapar málum í Hæstarétti sem sá aðili vill vinna. Mér finnst það bara ekki nógu gott, virðulegi forseti. Mér finnst að við ættum að fella brott 26. gr. frumvarpsins. Fyrir utan það verð ég að segja, eins og reyndar mjög oft, að mér finnst það engan veginn einsýnt að þetta standist stjórnarskrá. Mér finnst ekki augljóst að málflutningur Hagsmunasamtaka heimilanna sé rangur í þeim efnum. Ég hallast að því að hann sé rangur, mér sýnist hann vera rangur en ég er engan veginn viss. Mér finnst þess vegna það vera atriði sem hefði mátt skoða betur frekar en að tilkynna minni hlutanum um niðurstöðu meiri hlutans þegar fundi allsherjar- og menntamálanefndar var lokið. Mér finnst þetta ekki góð vinnubrögð, virðulegi forseti, og verð að kvarta aðeins undan því.

Hv. 3. þm. Suðurk., Birgir Þórarinsson, ræddi áðan um efasemdir um að leggja í þennan kostnað á þessari stundu vegna Covid-faraldursins. Fyrst ég hef orðið þá verð ég að koma að mínu eigin sjónarmiði, virðulegi forseti, sem er að þetta er akkúrat rétti tíminn til þess. Þetta er akkúrat rétti tíminn til að styðja við nýsköpun, menntun og þess háttar. Þegar fjöldi fólks fær ekki atvinnu, missir vinnuna, þá getum við nýtt þann tíma til að undirbúa okkur fyrir framtíðina. Það er þannig sem við eigum, að mínu mati, að kljást við kreppur sem þessar, gefa fólki tækifæri til að nýta tímann og planta fræjum inn í framtíðina. Ég varð að koma þessu að fyrst þetta var nefnt í andsvörum áðan.

Að því sögðu mun ég greiða atkvæði með tillögu um að fella brott 26. gr. frumvarpsins. Aftur á móti mun ég greiða atkvæði með ágætum breytingartillögum meiri hlutans.

Að lokum vil ég segja að þótt það sé alls konar efnislegur ágreiningur milli tveggja til þriggja minni hluta og meiri hluta um efnið þá held ég og vona og trúi því að þetta mál verði mikið heillaspor. Það verði mjög jákvætt fyrir getu okkar til að styðja við námsmenn. Ég er samt afskaplega feginn því að lögin verði tekin til endurskoðunar, vegna þess að ég held að nokkrar gildrur séu þar sem geti bitið okkur í tána síðar, og eftir að við öðlumst reynslu af þessum lögum. Ég geri fastlega ráð fyrir því að innan skamms munum við komast að einhverjum slíkum vanköntum, jafnvel umfram þá sem þegar hafa verið ræddir og ekki ræddir nóg að mínu mati. Þá býst ég við því og vona að samstaða verði um að klára þau mál hratt og vel, en auðvitað að vel athuguðu máli.