150. löggjafarþing — 114. fundur,  8. júní 2020.

innflutningur dýra.

608. mál
[17:36]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Forseti. Ég vil byrja á því að þakka framsögumanni málsins, hv. þm. Lilju Rafneyju Magnúsdóttur, formanni atvinnuveganefndar, fyrir að hafa tekið svo vel á þessu máli um sóttvarnir dýra og innflutning dýra hvað varðar dýravernd, passa upp á að vel sé búið um sóttvarnir en bæta dýravernd við samhliða. Það er mjög gott. Það komu umsagnir hvað þetta varðar frá Dýraverndarsambandi Íslands, Félagi ábyrgra hundaeigenda og Samtökum grænkera, sem eru vegan-samtök á Íslandi sem stilla sinn lífsstíl þannig að velferð dýra sé höfð að leiðarljósi, hvort sem um er að ræða hvað fólk borðar eða hvers konar klæðnað það velur eða hvað.

Í frumvarpinu eins og það kom frá ráðherra segir, með leyfi forseta:

„Dýrum, sem eru flutt inn án heimildar eða sleppa úr flutningsförum, skal tafarlaust lógað og fargað bótalaust á kostnað umráðanda svo eigi stafi hætta af. Matvælastofnun er þó heimilt að gefa kost á að slík dýr séu tafarlaust send úr landi sé smitvörnum ekki ógnað.“

Eins og framsögumaður fór yfir áðan er búið að breyta þessu verulega til að gæta að velferð dýra. Það var líka bent á að þetta væri á kostnað þess aðila sem væri að flytja dýrið inn, jafnvel þó að það væri ekki honum að kenna. Ef dýrið sleppur eða einhvers konar mistök eiga sér stað er það samt sem áður á kostnað eigandans eða innflytjandans. Segjum að dýrið hafi verið sett í sóttkví eða eitthvað svoleiðis og sleppur þaðan. Þetta var leiðrétt líka, sem er mjög gott.

Þetta frumvarp er um breytingu á lögum um innflutning á dýrum, varðandi sóttvarna- og einangrunarstöðvar, og það er búið að laga ofboðslega mikið, eins og ég segi, dýravelferðarvinkilinn með hliðsjón af því sem ofantöldu samtökin nefndu. En ástæðan fyrir því að ég er með fyrirvara er að ekki var tekið á einu sem ég hefði viljað sjá. Það eru heimasóttvarnir, ekki bara fyrir dýr sem eru hjálpardýr eins og hjálparhundar fyrir blinda eða slíkt. Þeir geta fengið undanþágu til að vera með dýrin í heimasóttkví. Mér fannst að það hefði verið hægt að taka betur á því. Var það ekki í fyrra nefndaráliti sem eitthvað kom fram varðandi það? Ég er með fyrirvara á því en annars er þetta mjög vel gert í nánast alla staði varðandi það að efla dýravelferð í þessu frumvarpi, ég vil þakka það.

Ég vildi nefna það í lokin að í nefndarálitinu segir: „Jón Þór Ólafsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins en skrifar undir álit þetta í samræmi við 4. mgr. 18. gr. starfsreglna fyrir fastanefndir Alþingis, og með fyrirvara.“

Ég var ekki fjarverandi því ég var búinn að hringja mig inn á fundinn. Ég þurfti að víkja af fundi til að sækja börnin mín en ég fór inn á fjarfundinn. Ég hafði ekki tillögurétt eða atkvæðarétt á fundinum en ég sat þó fundinn áfram með seturétt og málfrelsi. Þetta er þá bara leiðrétt hérna munnlega.