150. löggjafarþing — 114. fundur,  8. júní 2020.

siðferðileg gildi og forgangsröðun í heilbrigðisþjónustu.

634. mál
[18:13]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Ég vil leiðrétta eitt; mér var bent á að ekki hafi allir þingmenn Sjálfstæðisflokksins samþykkt frumvarpið. (ÓBK: Átta sögðu nei.) Átta þingmenn Sjálfstæðisflokksins sögðu nei, (Gripið fram í.) segir hv. þm. Óli Björn Kárason, við afgreiðslu á frumvarpi um fóstureyðingar, eða þungunarrof. Það er rétt að halda því til haga og leiðréttist það hér með. En það er einnig rétt að halda því til haga að Sjálfstæðisflokkurinn, sem á sér merka sögu þegar kemur að baráttunni gegn fóstureyðingum og barðist gegn þeim hér á árum áður, að flokkurinn hefði getað stöðvað þetta mál í ríkisstjórn á sínum tíma á síðasta ári en gerði það ekki. Málið varð að lögum og þar ber Sjálfstæðisflokkurinn að sjálfsögðu ábyrgð þar sem hann situr í núverandi ríkisstjórn. Ég ætlaði nú ekki að fara út í þá sálma hér, en það má að sjálfsögðu ræða það síðar og er mikilvægt að minna á það.

En ég er ósammála hv. þm. Ólafi Þór Gunnarssyni um að mannhelgin sem við höfum rætt hér, nái ekki til fósturs í móðurkviði. Ég get ekki séð annað en að þar sé þingmaðurinn kominn út á mjög hála braut. Og þegar hann segir að við höfum skilgreint — það er ekki í okkar verkahring að skilgreina það. Fóstur er lifandi mannvera og á þá að njóta þeirrar mannhelgi sem hv. þingmanni var tíðrætt um hér. Hv. þingmaður benti mér á að lesa umsögn Siðfræðistofnunar við fóstureyðingafrumvarpið. Ég hef gert það, ég er ekki sammála því. En ég vil þá benda hv. þingmanni á að lesa spádómsbók Jeremía í Biblíunni, sérstaklega þegar drottinn talar og segir: Ég þekkti þig í móðurkviði.