150. löggjafarþing — 114. fundur,  8. júní 2020.

uppbygging og rekstur fráveitna.

776. mál
[18:48]
Horfa

Frsm. um.- og samgn. (Líneik Anna Sævarsdóttir) (F) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Eins og hann benti á kom það upp bæði í fyrri umræðu og fyrir nefndinni hvar skilin væru í raun í framkvæmdum. Um það er fjallað í nefndarálitinu. Nefndin áréttar þar að framkvæmdir frá og með 1. janúar 2020 falli undir 1. gr. frumvarpsins. Framkvæmdir sem unnar hafa verið á þessu ári falla þarna undir. Þær gætu verið liður í stærra verkefni þar sem eitthvað er fyrirhugað á næstu árum en öðru er lokið. Þarna er sem sagt tekið á því að framkvæmd sé styrkhæf sem gerð er innan þessa árs og síðan í framhaldinu og fellur að öðru leyti að þeim reglum sem gilda. Ég veit að það á við um hluta af þeim framkvæmdum sem Samorka benti á, bæði einhver verkefni á Norðurlandi og líklega víðar. Auðvitað þurfa þau sveitarfélög sem þarna eiga hlut að máli að skila sínum áætlunum og það fer allt í gegnum heildarmat, en það er alla vega tekinn af sá vafi sem var uppi. Við undirbúning frumvarpsins var í rauninni gert ráð fyrir að hinu nýja fyrirkomulagi yrði ekki komið á fyrr en frá og með næstu áramótum. En vegna ákvarðana sem teknar hafa verið sem viðbragð við afleiðingum Covid kemur þessi stuðningur og þetta frumvarp fram á þessu þingi og nær til ársins í ár.