150. löggjafarþing — 115. fundur,  9. júní 2020.

störf þingsins.

[13:33]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S):

Virðulegi forseti. Undanfarin misseri, og ekki síst síðustu daga, hefur mikið verið rætt um hin ýmsu samkomulög á milli ríkis og sveitarfélaga og kannski helst á milli ríkisins og höfuðborgarinnar Reykjavíkur. Ég ætla aðeins að koma inn á eitt af stærri samkomulögunum sem er svokallaður höfuðborgarsáttmáli, sem er gríðarlega mikilvægur sáttmáli: nái hann fram að ganga. En það er kannski lykilatriði, nái hann fram að ganga. Það er mikilvægt að allir aðilar virði það samkomulag og það sé ekki einstefna þannig að ríkið setji inn fjármagn og einungis komist í gegn skipulagslega þær framkvæmdir sem henta höfuðborginni sjálfri.

Ég vildi því leggja áherslu á það að í samkomulaginu er skýrt tekið fram að báðir aðilar þurfi að halda samkomulagið og að hægt sé að endurskoða það gangi það ekki eftir. Það er margt gott í þessu samkomulagi og ljósastýringamálin eru komin vel af stað og eru í forgangi. Mun vonandi fara að fréttast af því í þessum mánuði hver næstu skref verða í því.

Það gengur kannski hægar að koma stórum mikilvægum framkvæmdum af stað sem eru búnar að bíða lengi. Það er eitt af því góða við höfuðborgarsáttmálann að tíu ára framkvæmdastopp hér í höfuðborginni var rofið með honum. En það hefur samt ekki tekist að rjúfa það formlega þar sem skipulagsmál milli Bústaðavegar og Reykjanesbrautar hafa ekki klárast, skipulagsmál varðandi Arnarnesveginn hafa ekki klárast og það hefur þurft að stofna enn eina nefndina varðandi Sundabraut og annað slíkt. Ég vildi bara leggja áherslu á það að til að þetta samkomulag nái fram að ganga þurfa allir aðilar að kappkosta að láta allt samkomulagið ganga eftir og standa við skuldbindingar sínar í því.