150. löggjafarþing — 115. fundur,  9. júní 2020.

störf þingsins.

[13:45]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Úrskurðarnefnd lögmanna hefur nýlega úrskurðað að Almenn innheimta, sem sér um innheimtu á smálánum fyrir smálánafyrirtæki, hafi brotið innheimtulög og sendi lögmanninum sem er eigandi Almennrar innheimtu, áminningu vegna ólöglegrar innheimtu. Á heimasíðu Neytendasamtakanna segir að lántakendur sem tóku lán hjá smálalánafyrirtækjunum fram í júní á síðasta ári gætu mögulega hafa ofgreitt stórar fjárhæðir. Þeir gætu þar með átt rétt á endurkröfu frá smálánafyrirtækinu. Sé það tilfellið ætti fólk ekki að greiða krónu til viðbótar fyrr en kröfuhafi getur sýnt fram á réttmæti krafnanna. Fólk er hvatt til að fara fram á leiðréttingu.

Þá staðfesti kærunefnd neytendamála nú í maí þá ákvörðun Neytendastofu að íslensk lög gildi um lán smálánafyrirtækja og það þótt þau væru skráð í Danmörku. Þá kemur fram á heimasíðu Neytendasamtakanna að smálánafyrirtæki sæti nú lögreglurannsókn í Danmörku vegna gruns um peningaþvætti og hafi hætt útlánastarfsemi og vísað er á Almenna innheimtu hafi lántakendur athugasemdir.

Hvernig stendur á því að við hér á Alþingi leyfum svona ólöglega innheimtu og það án eftirlits sem smálánafyrirtæki hafa nýtt sér til að klekkja á fátæku fólki? Almenn innheimta virðist hafa þann eina starfa að innheimta ólögleg smálán og kemst upp með það í flestum tilfellum af því að það er í eigu lögmanna og fellur ekki undir eftirlit Fjármálaeftirlitsins og þarf því ekki innheimtuleyfi. Þessi gjörningur er gerður með undanþágu frá innheimtulögum sem við hér, löggjafinn, Alþingi, getum ekki réttlætt með nokkru móti og er okkur til háborinnar skammar. Eða eins og segir orðrétt á heimasíðu Neytendasamtakanna, með leyfi forseta:

„Niðurstaðan í þessum tveimur málum sýnir svo ekki verður um villst að innheimtustarfsemi þrífst án raunverulegs eftirlits og viðurlaga. Það eitt og sér er gróft brot á neytandarétti og hafa Neytendasamtökin ítrekað bent á þessar brotalamir í lögum. Nú þarf löggjafinn að hysja upp um sig buxurnar.“

Eigum við að gera það? Ef ekki, hvers vegna ekki?