150. löggjafarþing — 115. fundur,  9. júní 2020.

störf þingsins.

[13:47]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Herra forseti. 1.114 er ekkert rosalega há tala. 1.140 ekki heldur. Hvor tala um sig er t.d. rétt rúmlega fjöldi þeirra sem býr í Vesturbyggð. En 1.114 og 1.140 eru ekki bara tölur. Þetta er fjöldi þeirra sem annars vegar bíða eftir augasteinsaðgerðum á Íslandi og hins vegar eftir liðskiptaaðgerðum. Fólk sem kvelst heima hjá sér, er á verkjastillandi allan sólarhringinn, er félagslega heft en fær ekki úrlausn sinna meina. Á sama hátt er talan 62 ekki mjög há tala en það bíða 62 konur eftir brjóstnámi að hluta eða öllu leyti vegna krabbameins. Þessar tölur, herra forseti, eru síðan í október. Þær hafa væntanlega hækkað núna í Covid-ástandinu. En það versta er að þessar tölur eru manngerðar. Það er hægt að vinna bug á þessum biðlistum. Það er hægt að bæta líf þessa fólks, þeirra einstaklinga sem í hlut eiga, og það er jafnvel hægt að auka lífslíkur þeirra með því að ráðast að vandanum. En það er ekki hægt út af pólitískum trúarkenningum. Það er ekki hægt af því að það má ekki versla við einstaklinga og fyrirtæki sem geta gert þessar aðgerðir, af því að þeir gætu grætt aðeins á því. Á meðan þessu fer fram lengjast hinir manngerðu biðlistar.

Herra forseti. Ég vona að hæstv. heilbrigðisráðherra sofi vel því að fólkið á biðlistunum gerir það ekki.