150. löggjafarþing — 115. fundur,  9. júní 2020.

Menntasjóður námsmanna.

329. mál
[14:17]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Ég fagna frumvarpinu sem við erum vonandi að fara að samþykkja hér í dag. Þetta er löngu tímabært, hefur verið lengi í smíðum og lagt fram hér áður, fyrir einhverjum árum, þar sem gerð var tilraun til að mæta því sem ítrekað hefur verið kallað eftir, þ.e. að búa til betra kerfi en nú er til staðar. Það tel ég að við séum að gera hér. Það verður endurskoðað eftir þrjú ár sem ég tel mikilvægt. Þegar við erum að gera stórar kerfisbreytingar getur alltaf eitthvað farið fram hjá okkur sem vert er að skoða að ekki svo löngum tíma liðnum.

En frumvarpið er gott og ég tel að við náum utan um helstu málaflokka sem hér hafa verið gagnrýndir. Ég er ekki sammála því að spurningum hafi ekki verið svarað. Hins vegar getur vel verið að okkur líki ekki svörin. Það er svo aftur allt annar handleggur. Spurt er um kostnaðinn sem okkur finnst mikill. Við höfum lagt til að horft verði til þess að allir þeir starfsmenn sem lagt er upp með verði ekki ráðnir á einu bretti heldur hægt og rólega (Forseti hringir.) til að sjá hverju fram vindur og hversu margir koma til með að nýta sér nýja sjóðinn eins og hann er fram settur. (Forseti hringir.) Þetta er gott framtak og löngu orðið tímabært að frumvarp eins og þetta verði að lögum.