150. löggjafarþing — 115. fundur,  9. júní 2020.

varnir gegn hagsmunaárekstrum í Stjórnarráði Íslands.

523. mál
[14:27]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég eins og aðrir fagna þessu frumvarpi. Ég tel að það sé þarft og markmiðið með því er sannarlega gott. Markmiðið er að efla traust á stjórnmálum og stjórnsýslu. Ég hef hins vegar ákveðnar áhyggjur af því að niðurstaðan verði ekki sú að efla traust á stjórnmálum og stjórnsýslu. Regluverk eins og þetta getur aldrei fyllilega náð fram tilgangi sínum þegar eftirlitsþáttinn vantar. Það er í reynd niðurstaðan í þessu máli. Eftirlitsþáttinn vantar, hann er a.m.k. svo veikburða að það er í sjálfu sér til þess fallið að draga úr því trausti sem ætlunin er að skapa.