150. löggjafarþing — 115. fundur,  9. júní 2020.

vörumerki.

640. mál
[16:01]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég hef svo sem áður sagt það um skyr að við glötuðum mjög stóru tækifæri með því að verja ekki hagsmuni okkar í því máli. Það er reyndar orðið svolítið algengt þegar kemur að því að verja íslenska hagsmuni að fólk er svolítið seint af stað. En þar erum við ekki að tala um neitt sem fellur nákvæmlega hér undir. Lyktin og bragðið af skyri er ekki jafnmikilvægt og hugtakið skyr, aðferðin við að framleiða skyr. Þegar við tölum um það í þessu samhengi verðum við að átta okkur á að nú þegar hefur orðið ákveðin útvíkkun á hugverkarétti til að ná yfir það sem kallað er landfræðileg merking. Til dæmis má parmesan-ostur ekki heita parmesan með því nafni einu nema hann komi frá Reggiano-héraði á Ítalíu o.s.frv.

Auðvitað hefðum við átt að segja: Já, skyr kemur frá Íslandi. En það var ekki gert. Og vegna þess að öll reglugerð utan um landbúnað á Íslandi snýst alltaf svo mikið um að reyna að verja landbúnaðinn gegn því að þurfa að taka þátt í samkeppni þá er stærsti skyrframleiðandi heims nú í Finnlandi. Það er afleikur Íslendinga en tengist ekki neitt útvíkkun hugverkaréttar. Í rauninni hefur það allt með það að gera að við Íslendingar þurfum að fara að átta okkur á því hvað við höfum nú þegar og fara að spila leikinn eins og hann er spilaður. Við getum svo sem átt langt samtal um það hvernig við breytum stjórnkerfinu og samfélaginu í áttina að því að hætta að klúðra stórum tækifærum. En við skulum alla vega reyna að klúðra ekki því tækifæri að hafna því að gefa stórfyrirtækjum, aðallega bandarískum, (Forseti hringir.) stærri hluta af raunveruleikanum.