150. löggjafarþing — 115. fundur,  9. júní 2020.

vörumerki.

640. mál
[16:06]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Herra forseti. Það er ágætispunktur. En það hefur líka alltaf verið sagt. Einhvern veginn eru hugverkaréttindi og útvíkkun þeirra alltaf rökstudd með vísan til þess að það sé til að verja minni aðila. „Statute of Anne“, árið 1710, sem ég nefndi í upphafi ræðu minnar, var sett fram sem leið til verja höfundarétt en hafði aðallega það hlutverk að verja drottninguna og vald hennar yfir útgáfustarfsemi. „Sonny Bono act“ í Bandaríkjunum, árið 1976, var sett fram sem leið til þess að verja og lengja höfundarrétt einstaklinga en hafði aðallega það hlutverk að tryggja Disney eignarhald á hugverkum sínum til 70 ára til viðbótar. Þegar á hólminn er komið gengur þetta alltaf út á að útvíkka réttindi stóru aðilanna og alltaf á kostnað þeirra minni.

Við sjáum svo mörg dæmi um það og það hefur verið skrifað svo mikið um það. Ég veit ekki einu sinni hvar ég ætti að byrja. Vissulega eru smærri aðilar sem hafa grætt á hugverkarétti en ég man ekki eftir neinni góðri rannsókn sem sýnir fram á að hinir minni aðilar hefðu grætt minna ef hugverkaréttindin hefðu ekki verið til staðar. Það er kannski kjarninn í málinu að þegar öllu er á botninn hvolft ganga höfundaréttur, einokunarréttur, eins og einkaleyfi og vörumerkjaréttur, ekki upp og hafa engan tilgang utan þess samfélags þar sem stór fyrirtæki ráða mjög miklu. Það er allt að fara í þá átt. Við þurfum betri samkeppnisreglur, við þurfum betri reglur til að halda utan um það allt saman, (Forseti hringir.) en þetta mun ekki hjálpa litlum aðilum, hvorki á Íslandi né annars staðar. Ef eitthvað er mun þetta ýta undir að smærri aðilar verði keyptir upp af stærri aðilum eða að þeir verði reknir úr rekstri með einum eða öðrum hætti.