150. löggjafarþing — 115. fundur,  9. júní 2020.

ferðagjöf.

839. mál
[17:15]
Horfa

Frsm. minni hluta atvinnuvn. (Ólafur Ísleifsson) (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ég vil byrja á því að segja að það er ekki stærsta málið hvort frumvarpið hefur yfirskriftina gjöf eða ávísun og ég undirstrikaði það í minni framsögu sem snerist að mestu leyti um efnisatriði málsins. Hitt má kannski nefna, til að bæta við þá umræðu, að um það að gefa gjafir af almannafé má hafa ýmis orð. Ef menn vilja hugsanlega kalla þá ráðstöfun gjöf, þar sem í raun og veru er verið að ráðstafa fé almennings aftur til almennings, þá mega menn það auðvitað mín vegna.

En hv. þingmaður spurði um þau atriði sem hafa komið hérna til umræðu. Það kom fram í nefndinni að það væru ástæður, m.a. af tæknilegum toga og vegna flóknara fjölskyldumynsturs en áður var í íslensku samfélagi, að lækka aldursmarkið. Ég heyrði þær umræður og þau sjónarmið sem þar voru að með því að hækka fjárhæðina þá væri kannski að vissu leyti komið til móts við barnafjölskyldur en kannski ekki að öllu leyti. Ég sé að ljósið er farið að blikka þannig að ég ætla að spara mér þar til (Forseti hringir.)(Forseti (BN): Rúmlega það.)

í seinna andsvari að svara hinu efnisatriðinu sem fram kom hjá hv. þingmanni.