150. löggjafarþing — 115. fundur,  9. júní 2020.

ferðagjöf.

839. mál
[17:52]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu. Hér er á ferðinni mál sem skiptir ferðaþjónustuna að sjálfsögðu sérstaklega miklu máli og mun vonandi, eins og markmiðið er, örva þá mikilvægu atvinnugrein okkar sem hefur orðið fyrir gríðarlegum áföllum í veirufaraldrinum eins og við þekkjum. Markmiðið er að stuðla að því að Íslendingar og aðrir sem hafa íslenska kennitölu ferðist innan lands. Auk þess að ferðast um landið sem við vonum að flestir muni gera í sumar þá munu þeir væntanlega kaupa þjónustu á leiðinni líka þannig að þetta felur í sér svolítið margfalda örvun sem er mjög mikilvæg á þessum tímapunkti.

Ég ætla að koma aðeins nánar á eftir inn á upphæðina sjálfa, 5.000 krónurnar, sem við í Miðflokknum teljum ekki nægilega háa. Við munum flytja breytingartillögu um að hækka þá upphæð. Samtök ferðaþjónustunnar hafa lagt sérstaka áherslu á að þessi upphæð sé ekki nægileg en fagna henni engu að síður og að sjálfsögðu er málið sem slíkt mikilvægt eins og ég nefndi. Þess vegna ber að þakka fyrir það.

Frumvarpið er hluti af aðgerðapakka ríkisstjórnarinnar og felur í sér viðspyrnu til að bregðast við því sem hefur dunið yfir okkur í efnahagslífinu vegna veirufaraldursins og þá sérstaklega, eins og ég nefndi, á ferðaþjónustunni sem er nánast bara tekjulaus. Það er mjög sérstakt, herra forseti, að ferðast um landið núna. Ég var á ferðinni um helgina um Suðurland og það eru afar fáir á ferli, fáir bílar á vegum landsins og mikil breyting frá því fyrir faraldurinn. Það er því alveg ljóst að maður sér það áþreifanlega þegar maður ferðast um landið, hversu alvarleg staðan er í þessari mikilvægu grein sem hefur skilað gríðarlegum gjaldeyristekjum í þjóðarbúið á undanförnum árum, vaxið mjög og verið atvinnuskapandi.

Ferðagjöfin var kynnt í einum af aðgerðapökkum ríkisstjórnarinnar vegna veirufaraldursins og var í þeim fyrsta að mig minnir og er ein af mótvægisaðgerðum ríkisstjórnarinnar. Hún miðar að því að auka ferðalög innan lands og styðja þar með við innlend ferðaþjónustufyrirtæki. Hún er kynnt sem styrkur til ferðaþjónustunnar og hvatning til ferðalaga innan lands og er beinn stuðningur við íslenska ferðaþjónustu þannig að aðgerðin er táknræn en engu að síður mikilvæg. Markmiðið er að örva eftirspurn og hvetja Íslendinga og aðra með íslenska kennitölu til að ferðast innan lands í sumar.

Við höfum að sjálfsögðu væntingar til úrræðisins. Fyrirtæki þurfa að skrá sig til þátttöku til að taka við ávísuninni frá stjórnvöldum eða þessari 5.000 kr. upphæð og við vonum að sjálfsögðu að öll fyrirtæki í ferðaþjónustugeiranum geri það. Þegar við horfum á þær væntingar þá eru líka væntingar um að þau ferðaþjónustufyrirtæki sem hér um ræðir komi kannski líka eitthvað inn í ef þau hafa mögulega efni á því og veiti einhvers konar tilboð á móti. Það held ég að skipti máli og vonandi hafa þau svigrúm til þess og þannig verður hvatningin í raun og veru meiri og þannig hækkar upphæðin til hvers einstaklings. Á þann hátt væri hægt að gera meira úr ferðinni ef það kemur tilboð á móti frá ferðaþjónustuaðilunum, sem væri mjög æskilegt.

Þessi ferðagjöf er til að örva efnahagslífið og er góð leið í þeim efnum. Að færa öryrkjum 20.000 kr. aukalega núna í byrjun sumars var að sama skapi hugsað til þess að viðkomandi eyði þeirri upphæð og kaupi vöru og þjónustu og þannig örvi það efnahagslífið. Við í Miðflokknum höfum bent á að það hefði kannski verið skynsamlegt að hugsa líka til eldri borgara hvað þetta varðar, að gefa þeim færi á því að örva efnahagslífið með því að færa þeim einhvers konar viðbótargreiðslu vegna veirufaraldursins. Við því hefur ekki orðið og finnst mér rétt að nefna þetta hér vegna þess að tilgangurinn er sá sami, hvort sem það er ferðagjöf, greiðsla til hópa eins og öryrkja — og svo hefðu eldri borgarar átt að vera þarna að mínum dómi inni í þessum aðgerðum — einfaldlega að örva efnahagslífið.

Samtök ferðaþjónustunnar sendu inn umsögn um frumvarpið og vilja benda á mikilvægi þess að koma ferðagjöfinni í notkun sem allra fyrst og það vil ég taka heils hugar undir vegna þess að allar tæknilausnir þurfa að ganga hratt og vel fyrir sig. Eitt má kannski gagnrýna í aðgerðapakka ríkisstjórnarinnar: Aðgerðirnar hafa margar hverjar komið allt of seint til framkvæmda og orðið á leiðinni fyrir alls konar töfum, ég nefni brúarlánin sem dæmi. Dýrmætur tími og dýrmæt verðmæti tapast þegar þetta kemst ekki til framkvæmda sem fyrst. Það er mjög mikið atriði. Auk þess er það jákvætt, finnst mér, að þeir sem ætla ekki að nýta gjöfina geti gefið öðrum hana. Það er gott mál og mikilvægt.

Ég vil næst, herra forseti, koma aðeins að upphæðinni sem slíkri. Við í Miðflokknum teljum að hún þurfi að vera hærri, a.m.k. 15.000 kr. Samtök ferðaþjónustunnar leggja áherslu á það og það er nú bara þannig að því hærri sem ferðagjöfin er, því líklegra er að ferðalangurinn fari lengra, geri meira og fari jafnvel oftar að ferðast. Sá sem er á ferð setur meira fjármagn í hagkerfið eftir því sem hann fær meira í ferðagjöf. Það hefur áhrif og örvar á fleiri sviðum og þó að það kosti meiri fjármuni úr ríkissjóði að hækka upphæðina þá skilar hún meiru til baka. Það er mikilvægt að hafa í huga. Ef hún er hærri þá aukast líkurnar á því að sá sem býr í Reykjavík fari lengra út á land og eyði ferðagjöf sinni og þá síðan sínum eigin fjármunum á móti. Það er allt jákvætt sem tengist því að hækka upphæðina og skiptir ferðaþjónustuna máli og allt hagkerfið. Samtök ferðaþjónustunnar mælast til að gefin verði að lágmarki 15.000 kr. gjöf sem jafngildir í raun og veru einnar nætur gistingu með morgunverði í ferðaþjónustunni. Ég tel mjög æskilegt að sú leið yrði farin og vil hvetja þingheim til að samþykkja breytingartillögu Miðflokksins í þeim efnum um hækkun um 10.000 kr. í 15.000 kr.

Þetta er mikilvægt og verður að skoðast í ljósi þess að mikilvægt er að innspýting verði í fleiri greinum, eins og í þjónustu og verslun. Það vinnur allt saman þannig að hækkun á upphæðinni skilar mjög miklum árangri, að mínum dómi, og hefði átt að skoðast betur innan nefndarinnar. Við sjáum t.d. að miklir fjármunir voru settir í hlutabótaleiðina svokölluðu, yfir 30 milljarðar, og síðan kemur í ljós að aðilar voru að nýta sér þá leið sem þurftu ekki á því að halda og höfðu í raun og veru ekki rétt á því samkvæmt lögunum og Ríkisendurskoðun hefur bent á þetta. Þess vegna segi ég að það hefði verið nær að leggja minni fjármuni í þá leið en meiri í þessa vegna þess að hún styrkir landsbyggðina og ferðaþjónustuna alla á landinu á mikilvægan hátt.

Það að Íslendingar ferðist innan lands í sumar skiptir sköpum fyrir ferðaþjónustuna og er henni gríðarlega mikilvægt og getur í mörgum tilfellum komið í veg fyrir að einstök fyrirtæki verði hreinlega gjaldþrota. Þess vegna er mjög mikilvægt að hér takist vel til. Ferðamálastofa telur í umsögn sinni nær öruggt að aðgerðin muni hafa svokölluð snjóboltaáhrif. Í umsögninni segir að einstaklingur sem notar ferðagjöfina til að borga fyrir þjónustu kaupi örugglega aðra þjónustu hjá ýmsum öðrum fyrirtækjum, þar á meðal fyrirtækjum sem gjafabréfið nær ekki til. Það er einmitt mjög mikilvægur punktur og þess vegna held ég að mjög mikilvægt sé að hækka upphæðina vegna þess að það mun virka hvetjandi. Leiðin hefur verið gagnrýnd fyrir að upphæðin sé of lág, sem er skiljanleg gagnrýni og á rétt á sér í ljósi þess að það er náttúrlega kostnaðarsamt að ferðast á Íslandi. Því hærri sem upphæðin er því meira hvetjandi virkar það á Íslendinga að ferðast innan lands.

Samband íslenskra sveitarfélaga og Vestfjarðastofa hafa lýst ánægju sinni með frumvarpið og í umsögn þeirra kemur fram sama athugasemd og þar er einnig rætt um að gildistíminn til áramóta sé of stuttur tími og einnig þurfi að huga að því að veturinn er fram undan og það getur orðið erfitt á mörgum sviðum á komandi haustmánuðum og komandi vetri ef ferðamenn fara ekki að koma til landsins í það miklum mæli að það skipti máli.

Auk þess er rétt að nefna að ferðaþjónusta á Íslandi hefur breyst gríðarlega á skömmum tíma, á nokkrum árum. Það hefur orðið gríðarleg uppbygging í ferðaþjónustu og þeir Íslendingar sem hafa kannski gert lítið af því að ferðast innan lands og kaupa þjónustu af íslensku ferðaþjónustunni verða örugglega hissa á því hve vel hefur til tekist. Ég vona svo sannarlega að þeir sem koma til með að nýta sér þetta úrræði og ferðast innan lands verði ánægðir með þá móttöku sem þeir fá hjá íslenskum ferðaþjónustuaðilum og þau gæði og þá þjónustu sem þar er í boði. Og ég er sannfærður um að allir verða það. Auk þess er kannski eðlilegt að í því framhaldi skoði fyrirtæki vöruframboðið. Við áttum okkur á því að markaðurinn fyrir Íslendinga er svolítið öðruvísi en fyrir erlenda ferðamenn. Sameiginlega held ég að þetta geti eflt innanlandsmarkaðinn á þessu ári og næstu árum vegna þess að Íslendingar fá þá vonandi að kynnast betur sinni eigin ferðaþjónustu.

Ég vildi aðeins nefna það sem ég nefndi í andsvari, sem mér finnst vera galli við frumvarpið, að það er ekki hægt að nota ávísunina til þess að leigja sér búnað til ferðalaga eins og t.d. tjald, svefnpoka, staðsetningartæki og fleira. Fyrirtæki sem ber heitið Iceland Camping Equipment á ensku, sem leigir út viðlegubúnað, sendi inn umsögn til nefndarinnar og kvartaði yfir því að ávísunin gilti ekki fyrir útilegubúnað og göngubúnað. Ég verð að segja að ég er mjög hissa á þessu vegna þess að þarna er ekki gætt jafnræðis. Ég nefndi það í andsvari að ávísunin gildir fyrir bílaleigubíla og það er hægt að leigja GPS-tæki, staðsetningartæki, með bílunum. En það er ekki hægt að leigja það sérstaklega hjá þeim fyrirtækjum sem leigja útilegubúnað, þar er ekki hægt að leigja GPS-tæki, þannig að jafnræðis er ekki gætt hvað þetta varðar. Og nú er það bara þannig, herra forseti, að það hafa ekki allir mikið milli handanna til að ferðast en vilja gjarnan ferðast í sumar og þá á ódýran máta og leigja sér tjald og svefnpoka. En það er hins vegar ekki hægt með þessari ávísun. Ég verð því að segja að það eru vonbrigði. Ég nefndi það sérstaklega í 1. umr. málsins og var að vonast til þess og beindi því til nefndarinnar að hún myndi ræða það sérstaklega. En það hefur, því miður, ekki orðið breyting á því sem ég er nú svolítið hissa á. Fram kemur í nefndaráliti minni hlutans, eins og segir hér, með leyfi forseta:

„Hvað varðar gildissvið frumvarpsins þá virðist skorta á að gætt sé jafnræðissjónarmiða …“

Dæmi um að heimilt verði að ráðstafa ávísun til leigu á bifreið en ekki tjaldi. Ég tek heils hugar undir það hjá minni hlutanum. Hv. þingmenn, Ólafur Ísleifsson og Sigurður Páll Jónsson, Miðflokki, skrifa undir það álit og benda réttilega á þetta. Þarna hefði farið betur á því að á þessu hefði verið tekið og heimilað hefði verið að leigja viðlegubúnað. Það hafa ekki allir efni á því að kaupa gistingu, ferðast með hjólhýsi eða þess háttar og vilja kannski bara ferðast á einfaldan máta, eins og gömlu góðu tjaldferðalögin voru og menn hafa margir hverjir haft mikla ánægju af í gegnum árin. Það hefði verið mjög æskilegt að mínum dómi að getað þá notað ávísunina, 5.000 kr., til þess að leigja sér tjald. En þetta er niðurstaðan og ég hefði svo sannarlega viljað sjá aðra niðurstöðu hvað það varðar.

Í heildina er málið mikilvægt og Miðflokkurinn styður það. Við hefðum hins vegar viljað sjá hækkun á framlaginu úr 5.000 kr. í 15.000 kr. og munum flytja breytingartillögu þess efnis, sem ég vona að þingheimur styðji vegna þess að það mun hafa margfeldisáhrif. Það mun gera að verkum að fólk mun hugsanlega fara lengra, ferðast lengra um landið og kaupa þá meiri þjónustu sem örvar allt efnahagslífið sem við öll njótum góðs af vegna þess að það er ákaflega mikilvægt, herra forseti, að við gerum allt sem við getum til að koma þessari mikilvægu atvinnugrein okkar á beinu brautina aftur, hún hefur orðið fyrir gríðarlegu tjóni, og að sama skapi fyrir allt efnahagslífið vegna þess að greinin hefur skilað okkur verulegum gjaldeyristekjum og skiptir þjóðarbúið miklu máli. Þess vegna eigum við að standa saman í því að reyna að örva þá mikilvægu atvinnugrein með öllum tiltækum ráðum.