150. löggjafarþing — 115. fundur,  9. júní 2020.

heimild til að stofna opinbert hlutafélag um uppbyggingu samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu.

735. mál
[18:49]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Haraldur Benediktsson) (S):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti með breytingartillögu um frumvarp til laga um heimild til að stofna opinbert hlutafélag um uppbyggingu samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu.

Ég fer ekki djúpt í forsögu málsins sem kom ágætlega fram við 1. umr. þess en megintilgangur frumvarpsins er, eins og þá kom fram, að uppfylla skuldbindinguna sem fram kemur í samgöngusáttmála er gerður var milli sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu og hins opinbera um að stofna félag sem yfirtaki undirbúning og framkvæmdir við nauðsynleg samgöngumannvirki. Með samgöngusáttmálanum á að stuðla að greiðum, skilvirkum, hagkvæmum og öruggum samgöngum á höfuðborgarsvæðinu, stuðla að því að loftslagsmarkmið stjórnvalda náist, stuðla að auknu umferðaröryggi og tryggja samstarf milli ríkisins og sveitarfélaganna um skilvirka framkvæmd og trausta umgjörð samgangna.

Samgöngusáttmálanum fylgir líka rammi eða samkomulag um heildarfjármögnun verkefna sem fram kom í sáttmálanum, alls um 120 milljarðar kr. á 15 ára tímabili.

Ég ætla ekki að rekja tilurð málsins frekar en grípa aðeins niður í ábendingar og umfjöllun hv. fjárlaganefndar um þingmálið og er þá fyrst að segja að í framhaldi af stofnun þessa félags og síðan þegar sest verður niður til að taka utan um verkefnið horfir meiri hluti fjárlaganefndar til ýmissa þátta sem taka þarf nauðsynlega afstöðu til í kjölfarið á stofnun félagsins. Má eiginlega segja að þeir þættir séu þau atriði sem fjárlaganefnd ræddi helst á fundum sínum um málið, sem voru allmargir og nefndinni bárust þrjár umsagnir um þetta stóra samgöngumál eða stóra fjárfestingarverkefni.

Félagið er opinbert hlutafélag, eins og segir í nefndarálitinu, og aðkoma að stefnumótun þess er í gegnum eigendastefnu sem eigendur félagsins koma sér saman um. Sú skylda hvílir á opinberum hlutafélögum að birta samþykktir sínar, reikninga og starfsreglur á vef félagsins. Einnig mega alþingismenn mæta á aðalfundi og bera fram skriflegar tillögur. Fulltrúum fjölmiðla er einnig heimilt að sækja aðalfundi.

Félagið er þó eðlisólíkt öðrum opinberum hlutafélögum þar sem fyrst og fremst er um að ræða farveg fyrir sameiginlega uppbyggingu samgöngumannvirkja og þróun og sölu á byggingarlandi. Ekki er gert ráð fyrir að félagið sé að öðru leyti með rekstur. Rekstur samgöngumannvirkja fellur til Vegagerðarinnar og eftir atvikum sveitarfélaga, eftir tegund og eðli samgöngumannvirkja og í samræmi við ákvæði vegalaga.

Félagið sér því ekki um opinberan rekstur samgöngumannvirkja. Hönnun mannvirkja verður unnin í samstarfi við Vegagerðina og ákvörðun um framkvæmdir fellur að áformum samgönguáætlunar á hverjum tíma.

Stjórn félagsins er skipuð sex einstaklingum, ráðherra tilnefnir þrjá og Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu tilnefna einnig þrjá. Ráðherra skipar formann án tilnefningar og í hluthafasamkomulaginu verður miðað við að atkvæði formanns ráði úrslitum falli atkvæði jöfn innan stjórnar. Til að hnykkja á því gerir meiri hluti fjárlaganefndar breytingartillögu við frumvarpið þar sem það er þá útfært í lögunum sjálfum.

Meiri hlutinn bendir á að félaginu er ætlað lykilhlutverk í uppbyggingu samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu en eðli máls samkvæmt hefur það ekki lokið samningsgerð um forgangsröðun og fjármögnun. Sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu hafa haft ólíka sýn á lausnir í samgöngumálum en félaginu er ætlað að ná sátt um lausnir og gera samninga af ýmsu tagi, svo sem við Vegagerðina um útboð framkvæmda og um þróun á landi ríkisins við Keldur til að hámarka virði þess. Þessi verkefni félagsins eru eðlisólík en mjög mikilvægt er að vel takist til við samningagerðina í því skyni að ná fram sem mestri hagkvæmni við uppbygginguna.

Aðkoma Alþingis og eftirlit fjárlaganefndar: Með því að færa samgönguframkvæmdir inn í opinbert hlutafélag hefur Alþingi ekki sömu aðkomu að málum eins og ef um væri að ræða hefðbundnar framkvæmdir í umsjón Vegagerðarinnar sem væru fjármagnaðar á samgönguáætlun.

Til að tryggja aðkomu þingsins er áréttað að árleg ríkisframlög til félagsins verða hluti af samgönguáætlun og fjárlögum hverju sinni auk þess sem umferðar- og flýtigjöld verða ekki sett á nema með sérstakri löggjöf. Þar sem félagið er í meirihlutaeigu ríkisins mun Ríkisendurskoðun sjá um bæði stjórnsýslu- og fjárhagsendurskoðun þess.

Einnig er bent á að gert er ráð fyrir sérstökum stýrihópi eigenda, sem útfærður verði í hluthafasamkomulaginu, sem fer yfir stefnumótandi mál sem tengjast verkefninu og veitir stuðning við úrlausn ágreiningsmála sem kunna að koma upp.

Meiri hlutinn leggur til reglulega upplýsingagjöf og eftirlit í tengslum við afgreiðslu fjármálaáætlunar og samgönguáætlunar hverju sinni og að stjórn félagsins upplýsi nefndina að fyrra bragði ef stefnir í frávik kostnaðaráætlana einstakra framkvæmda, samanber 25. gr. laga um þingsköp um rétt fjárlaganefndar til að kalla eftir upplýsingum. Með því verklagi verður Alþingi upplýst um stöðu framkvæmda hverju sinni, fjármögnun þeirra og hvernig miðar við að ná meginmarkmiðum félagsins.

Bent er á að ríkið tekur á sig ábyrgð á fjármögnun þeirra 60 milljarða kr. sem ætlunin er að fjármagna með flýti- og umferðargjöldum á höfuðborgarsvæðinu eða hugsanlega með eignasölu eða endurskoðun laga um skattlagningu á eldsneyti og ökutæki. Ef þau áform ganga ekki eftir á fyrirhuguðum tíma er nauðsynlegt að endurskoða fjármögnunina. Meiri hlutinn bendir á að frumvarp um gjaldtöku liggur enn ekki fyrir en í fjárstreymisáætluninni er gert ráð fyrir fyrstu tekjum af því tagi árið 2022.

Eitt meginhlutverk þessa félags, svo ég víki eiginlega að hinu hlutverki félagsins, er að undirbúa samgönguframkvæmdir og finna þeim stað. Félaginu er lögð til eign ríkisins, sem er land við Keldur, og félagið fær það hlutverk samkvæmt frumvarpinu að annast þróun landsins við Keldur í samvinnu við skipulagsyfirvöld þar sem sérstök áhersla er lögð á að hámarka virði landsins og uppbyggingarmöguleika þess með hagkvæmu skipulagi.

Bent er á að í samningi við félagið þarf að taka afstöðu til skilyrða við afhendingu Keldnalandsins, sem m.a. tengjast framtíðarstaðsetningu Tilraunastöðvar Háskóla Íslands í meinafræðum, og annarra forsendna og markmiða sem gilda um uppbygginguna á landinu. Skoða þarf hvort hagkvæmt sé að núverandi byggingar verði áfram á landinu eða hvort heppilegra sé að þær víki fyrir framtíðarskipulagi, þó þannig að við þróun uppbyggingar á landinu verði einnig tekið mið af markmiðum um félagslega blöndun eftir því sem kostur er og til álita kemur að tilteknu hlutfalli af lóðum verði úthlutað til óhagnaðardrifinna leigufélaga gegn eðlilegu endurgjaldi.

Meiri hlutinn vekur athygli á að áætlað verðmat á landi ríkisins við Keldur er lágt miðað við stærð þess og staðsetningu. Þróun á verðmæti landsins er því lykilatriði um framgang verksins. Verði verðmætið minna hækkar beint framlag ríkissjóðs samkvæmt samkomulaginu. Verði verðmæti þess meira telur meiri hlutinn skynsamlegt að sú fjárhæð komi til lækkunar á þeim hluta verkefnisins sem ætlunin var að fjármagna með flýti- og umferðargjöldum og styðst þar við áðurnefnt samkomulag um samgöngusáttmálann.

Þetta er í meginatriðum efni frumvarpsins og umfjöllun hv. fjárlaganefndar. Þetta er gríðarlega stór framkvæmd. Það er algjörlega tímabært að gera úrbætur í samgöngumálum á höfuðborgarsvæðinu og að hafa náð að ramma það inn með þessum hætti, búið til þennan sáttmála og koma þannig verkinu á þann stað að þegar er hafinn undirbúningur að einstaka úrbótum í samgöngumálum. Þó verður ekki hjá því komist að líta til þess að hér er um verulega fjármuni að ræða. Má leiða út úr frumvarpinu að ábyrgð ríkisins sé 105 milljarða kr. fjárveiting á næstu 15 árum. Það skiptir því gríðarlega miklu máli hvernig á verkinu er haldið.

Síðan geta menn haft allar skoðanir á því hvernig flýti- og umferðargjöld verða byggð upp, en ég minni á að slík gjaldtaka er útleyst í þessu þingmáli, annaðhvort með frekari eignasölu ríkisins eða með álagningu annarra gjalda, allt að 60 milljarða kr.

Virðulegi forseti. Ég nefndi áðan að meiri hluti fjárlaganefndar gerði eina litla breytingartillögu, sem skýrð er í nefndaráliti okkar, sem snýr að því að atkvæði formanns ráði úrslitum falli atkvæði jöfn innan stjórnarinnar.

Undir nefndarálitið skrifa án fyrirvara: Willum Þór Þórsson, formaður fjárlaganefndar, Haraldur Benediktsson framsögumaður, Páll Magnússon, Steinunn Þóra Árnadóttir og Bryndís Haraldsdóttir. Ágúst Ólafur Ágústsson, Björn Leví Gunnarsson og Inga Sæland skrifa undir álit þetta með fyrirvara.