150. löggjafarþing — 115. fundur,  9. júní 2020.

heimild til að stofna opinbert hlutafélag um uppbyggingu samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu.

735. mál
[20:44]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta var ansi magnað nefndarálit. Ég freistast til að segja að það hafi verið nánast eitt það óupplýstasta og mesta lýðskrum sem ég hef heyrt úr þessari pontu og þá er nú mikið sagt.

Förum aðeins yfir nokkur atriði. Hérna segir í nefndarálitinu að ræða eigi við stýrihóp en ekki stjórn á meðan það segir mjög, mjög skýrt í nefndarálitinu að stjórn félagsins upplýsi nefndina. Það er einfaldlega rangt sem stendur þarna. Það er talað um að það eigi að kveða á um skilyrðislausa upplýsingaskyldu. Það er gert. Um leið og frávik kemur upp á að láta vita. Það kemur einnig vel fram í nefndarálitinu.

Og svo þegar er byrjað að tala um borgarlínuna, guð — úff. Skortur á arðsemismati. Nei, dágóðan hluta alla vega af arðsemismatinu er að finna í öllum skýrslum málsins frá því árið 2012. Þar er t.d. talað um að án borgarlínunnar ykist akstur um 41,7% fram til 2030 en með borgarlínunni yrði aukningin 24%. Þarna er munur á í öllum sviðsmyndagreiningum sem hafa farið fram í þessu. Ef ekki er farið í bætingu á almenningssamgöngum, sem er borgarlínan, heldur farið í klassískar stofnbrautaframkvæmdir o.s.frv. þá er sú framkvæmd, meiri stofnbrautir í staðinn fyrir borgarlínu, miklu, miklu dýrari. Eiga borgarar landsins að greiða fyrir þá aukningu? Þetta er alveg ótrúlegur málflutningur sem kemur til af því að Miðflokkurinn er einfaldlega búinn að ákveða að vera á móti borgarlínunni sama hvað, sama þótt við séum með sviðsmyndagreiningar og áætlanir og mismunandi kostnaðarmatslíkön fyrir alla framkvæmdina í mjög ítarlegu máli og marga valkosti. (Forseti hringir.) Það er bara gjörsamlega horft fram hjá því og sagt að þetta kosti rosalega mikið og skattar verði hækkaðir og ég veit ekki hvað. (Forseti hringir.) Ég skil ekki hvaðan Miðflokkurinn hefur það nema bara með því að draga það út úr rassgatinu á sér. (Forseti hringir.)

(Forseti (BHar): Forseti vill biðja hv. þingmann að gæta orða sinna.)