150. löggjafarþing — 115. fundur,  9. júní 2020.

heimild til að stofna opinbert hlutafélag um uppbyggingu samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu.

735. mál
[20:49]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er tiltölulega skýrt hvernig borgarlínan lítur út. Á síðasta ári var t.d. 4% aukning í Strætó sem er umfram fólksfjölgun á svæðinu samhliða fækkun ferðamanna.

Þær sviðsmyndir sem hv. þingmaður vísar í eru taldar upp í skýrslum sem sviðsmynd A, B og C eftir því hversu mikið fjármagn er lagt í þær og hvort gert er ráð fyrir breyttum eða óbreyttum ferðavenjum. Við erum komin með sex mismunandi sviðsmyndir sem er tiltölulega mikið meira en við fáum í hv. fjárlaganefnd, þannig að út frá öllum þeim sviðsmyndum er augljóst hvaða valmöguleikar eru þar í boði. Hinn valmöguleikinn sem við fáum frá Miðflokknum er eitthvað annað, án nokkurrar sviðsmyndar, bara „sviðsmyndir hafa rangt fyrir sér, allar sex“. En heppilegt að akkúrat núna þegar við erum með sem flestar sviðsmyndir, sem bestar sviðsmyndir sem við höfum eiginlega séð í nokkru máli, þá eru þær allt í einu rosalega óheppilegar.