150. löggjafarþing — 115. fundur,  9. júní 2020.

heimild til að stofna opinbert hlutafélag um uppbyggingu samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu.

735. mál
[20:52]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Birgi Þórarinssyni fyrir ræðuna og framsögu í minnihlutaáliti í umræðu um þetta mál sem er heimild til að stofna opinbert hlutafélag, sem er ætlað að vera samvinnuvettvangur fyrir útfærslu og uppbyggingu framkvæmda, sem ég vil meina að sé, eins og margir hafa sagt, algjört tímamótasamkomulag.

Hv. þingmaður varpaði í framsögu sinni fram spurningunni hvort við höfum efni á þessu. Ég segi, hv. þingmaður: Við höfum ekki efni á því að gera ekki áætlanir um framtíðina og þau háleitu markmið sem eru í samkomulaginu. Hins vegar vil ég halda því til haga að hér erum við að skapa farveg til að sjá um framkvæmdir á þessu samkomulagi sem liggur fyrir. Það eru merkileg tímamót að stóru sveitarfélögin sex á höfuðborgarsvæðinu og ríkið nái saman um slíka framtíðarsýn sem er í öllu tilliti til að bæta lífsgæði.

Ég sé mig knúinn til að koma að því sem heitir eftirlitsþáttur sem kemur vel fram í meirihlutaáliti hv. fjárlaganefndar og hv. þm. Haraldur Benediktsson fór reyndar vel yfir í framsögu sinni. En í minnihlutaáliti segir, með leyfi forseta:

„Það vekur athygli að fjárlaganefnd ætlar í eftirlitshlutverki sínu að ræða við stýrihópinn og fá frá honum upplýsingar og vonandi gögn, en ekki frá stjórninni, sem ber hina raunverulegu ábyrgð.“

Í meirihlutaálitinu kemur hins vegar skýrt fram, með leyfi forseta:

„Meiri hlutinn leggur til reglulega upplýsingagjöf og eftirlit í tengslum við afgreiðslu fjármálaáætlunar og samgönguáætlunar hverju sinni og að stjórn félagsins upplýsi nefndina að fyrra bragði (Forseti hringir.) ef stefnir í frávik …“

Ég ætla bara að gefa hv. þingmanni (Forseti hringir.) færi á að leiðrétta þetta í svari sínu.