150. löggjafarþing — 115. fundur,  9. júní 2020.

heimild til að stofna opinbert hlutafélag um uppbyggingu samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu.

735. mál
[20:54]
Horfa

Frsm. minni hluta fjárln. (Birgir Þórarinsson) (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Hann kom inn á það að hér væri um tímamótasamkomulag að ræða. Ég tek undir það og ég sagði í ræðu minni að Miðflokkurinn fagnaði þeirri áherslu sem fram kemur í frumvarpinu á uppbyggingu á samgöngumannvirkjum á höfuðborgarsvæðinu. Það sagði ég. Við fögnum sérstaklega áherslu á nútímavæðingu á ljósastýringarkerfi höfuðborgarsvæðisins, samkomulagi um framkvæmdir á stofnbrautum, sem er ákaflega mikilvægt, og áætlaðri uppbyggingu hjólastíga og annarra vistvænna samgöngumáta eins og fyrir gangandi vegfarendur.

Við getum hins vegar ekki fallist á áform um borgarlínu. Ég vil ekki að menn slíti það úr samhengi í ræðu minni að við séum, og ég hér í minnihlutaáliti, á móti málinu í heild sinni. Það er alls ekki þannig. Við getum bara ekki fallist á þessi áform um uppbyggingu borgarlínu. Gríðarlegir fjármunir fara í þann tiltekna þátt verkefnisins og það er engan veginn nógu vel skilgreint með hvaða hætti framkvæmd, rekstur, skipulag og annað slíkt verður. Að okkar dómi er ekki forsvaranlegt að setja gríðarlega fjármuni í eitthvað sem við vitum ekki hversu mikið verður notað. Þarf að borga með þessu árlega? Svo því sé haldið til haga þá er það borgarlínan sem við höfum gert athugasemdir við.

Hv. þingmaður nefndi sérstaklega stýrihópinn. Ef það er misskilningur af minni hálfu biðst ég afsökunar á því. Ég hef hins vegar lagt áherslu á það að skilyrðislaus upplýsingaskylda þurfi að vera í lögunum. Það er það (Forseti hringir.) sem skiptir verulegu máli og við þekkjum hvernig (Forseti hringir.) eftirlitshlutverkið er hér hjá okkur. Því miður hefur það ekki verið virt af mörgum þeim sem eiga að láta (Forseti hringir.) Alþingi í té upplýsingar og það á réttum tíma.