150. löggjafarþing — 115. fundur,  9. júní 2020.

heimild til að stofna opinbert hlutafélag um uppbyggingu samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu.

735. mál
[20:57]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið og ágætt að hann kom því að hér að um misskilning væri að ræða af hans hálfu.

Ég vil jafnframt árétta að hv. fjárlaganefnd ræddi mjög um eftirlitið og eftirlitsþáttinn, hversu mikilvægur hann væri. Þetta er stór framkvæmd. Þetta er til 15 ára. Til að tryggja aðkomu þingsins er áréttað að árleg ríkisframlög til félagsins verða hluti af samgönguáætlun og fjárlögum hverju sinni þannig að það kemur alltaf til kasta þingsins að fara yfir þær upplýsingar og það sem fram kemur í framvindu framkvæmdanna.

Ég saknaði þess í ræðu hv. þingmanns að draga hér fram að við erum að flýta framkvæmdum sem gætu tekið 50 ár og pakka þeim saman á 15 ár, mjög mikilvægum framkvæmdum sem snúa að umferðaröryggi. (Forseti hringir.) Ég nefni Vesturlandsveg, Reykjanesbraut og Suðurlandsveg. Ég (Forseti hringir.) saknaði þess í ræðu hv. þingmanns að hann færi yfir þá jákvæðu hluti (Forseti hringir.) í þessum fyrirætlunum.