150. löggjafarþing — 115. fundur,  9. júní 2020.

heimild til að stofna opinbert hlutafélag um uppbyggingu samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu.

735. mál
[21:00]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Haraldur Benediktsson) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Birgi Þórarinssyni fyrir framsöguna en vil vegna þeirra orða sem hann lét falla aðeins koma inn í stuttu andsvari. Hv. formaður fjárlaganefndar, Willum Þór Þórsson, fór kannski líka að hluta til yfir það sem ég vildi árétta eftir framsögu hans hér, að nefndin tók fastar utan um það skipulag sem verður á málum, upplýsingagjöf til þingsins, utanumhald og það að þingmálin, hvort sem þau heita fjármálaáætlun, fjárlagafrumvarp eða samgönguáætlun, veita þinginu það fjárstjórnar- og stýrivald sem þinginu ber. Við ræddum það heilmikið í hv. fjárlaganefnd hver aðkoma þingsins væri eftir þá sérstöku skipan mála.

Ég vara við þeim tón í umræðu að við förum að tala um það hvort einhver landshluti geti ekki verið ósáttur við að byggja upp samgöngur í einhverjum öðrum landshluta af því að við höfum sem betur fer borið gæfu til þess að nálgast uppbyggingu samgönguframkvæmda sem samfélagslegt verkefni. Ég vil bara nefna það, hv. þingmaður.

Ég gat ekki svarað því í stuttu andsvari við hv. þingmann áðan til hvaða annarra landa eða landeigna væri verið að horfa. Við spurðum að því í hv. fjárlaganefnd og ég held að hv. þingmann reki örugglega minni til þess. Reyndar kemur mér á óvart þegar ég les nefndarálit hv. þingmanns hvað hann hefur verið ragur að afla upplýsinga því þeirra var auðvelt að afla. Það er mjög skýrt í samkomulaginu að 15 milljarðar eru vegna Keldnalands og við fjöllum heilmikið um það í nefndaráliti meiri hlutans hvernig við viljum taka utan um það. Það er skuldbinding ríkisins að koma með það. Það annað land sem þarna var nefnt án þess að ég ætli að nefna það land sérstaklega sem innlegg í félag, það stendur ekki til, eru fleiri landeignir eins og Keldnaholt.