150. löggjafarþing — 115. fundur,  9. júní 2020.

heimild til að stofna opinbert hlutafélag um uppbyggingu samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu.

735. mál
[21:08]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg):

Forseti. Það er gott að fá færi til að tala í þessu mikla máli og ég hvet hv. þingmenn til að gjamma fram í eins og þeir mögulega geta. Það er ágætt að vitleysan sem gjömmuð hefur verið fram í borgarlínuumræðu af hálfu Miðflokksins (Gripið fram í: Heyr, heyr.) komist betur á prent og upptöku. Það er bara mjög fínt.

Ég gat ekki látið hjá líða að taka til máls, forseti. Ég er einfaldur maður og þeirrar gerðar að stundum þegar verkefnin eru stór stíg ég til baka og horfi á hvað við erum að gera. Hv. þm. Willum Þór Þórsson fór ágætlega yfir það áðan. Við erum að fjalla um sáttmála þar sem sex sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu og ríkið hafa tekið höndum saman um þróun umferðar á öllu svæðinu, umferðar frá A til Ö, þ.e. einkabílar, almenningssamgöngur, hjóla- og göngustígar o.s.frv. Um það erum við núna að stofna hlutafélag. Það er í raun og veru það eina sem við erum að fjalla um í dag, hvernig hlutafélagið á best að verða samansett, hvernig við tryggjum öll sjónarmið og slíkt, en eðlilegt er, eins og var við 1. umr. málsins, að umræðan leiðist á einhvern hátt út í rótina, að því af hverju við erum að stofna hlutafélag, þ.e. höfuðborgarsáttmálann.

Hér höfum við heyrt sjónarmið andstæðinga málsins koma fram í máli framsögumanns hv. minni hluta nefndarinnar, Birgis Þórarinssonar. Það er þó ekki andstaða nema við hluta málsins því að vantraustið sem Miðflokkurinn og ýmis skoðanasystkini hans virðast bera til samgöngumála á höfuðborgarsvæðinu nær ekki til hins hluta samkomulagsins. Af ræðu og umræðu um ræðu hv. þingmanns og umræðum áðan mætti ætla að hér væri bara verið að fjalla um borgarlínu en stærri hluti af heildarupphæðinni fer í stofnvegi samkvæmt samkomulaginu. Stofnvegi sem menn hafa kallað svo mikið eftir hér og meira að segja leyft sér að ljúga upp á borgaryfirvöld í Reykjavík. Mér hefur þótt sem það sé lenska hjá ákveðnum þingmönnum að líta öðruvísi á meiri hlutann í Reykjavíkurborg en meiri hluta ýmissa annarra sveitarstjórna. Þeir leyfa sér að nota annað orðalag um þá kjörnu fulltrúa en kjörna fulltrúa annarra sveitarstjórna, leyfa sér að hafa öðruvísi skoðanir, kalla fyrir nefndarfundi jafnvel, af því að þetta er meiri hlutinn í Reykjavík. Mér leiðist það. Mér leiðist þegar komið er ólíkt fram við fólk af pólitískum ástæðum, hvort sem það eru kjörnir fulltrúar í Reykjavík eða annars staðar.

En fyrir hvern erum við að þessu öllu? Af hverju erum við að koma á þessu samkomulagi til margra ára? Jú, fyrir öll þau sem koma á höfuðborgarsvæðið. Það er ekki hægt að horfa fram hjá því að höfuðborgarsvæðið hefur að mörgu leyti ekki notið sömu fjárreiða af hálfu ríkisins í vegamálum og mörg önnur landsvæði hlutfallslega. Hingað komum við flest, hvort sem við búum á svæðinu eða heimsækjum það og hingað koma ferðamenn. Því miður er uppsöfnuð þörf fyrir uppbyggingu umtalsverð og þörfin fyrir að breyta samgönguvenjum er orðin gríðarleg, að breyta því að við séum ekki hvert og eitt okkar eitt á ferð í bíl. Þess vegna höfum við horft til þess að efla almenningssamgöngur og það hefur gengið, forseti. Hv. þm. Björn Leví Gunnarsson fór yfir það áðan í andsvari í ágætri samantekt með tölum um hvernig hefur tekist að efla almenningssamgöngur í því kerfi sem við erum með núna.

Forseti. Rúmlega þriðjungur íbúa höfuðborgarsvæðisins taldist notendur Strætós árið 2017. Hér leyfa sumir hv. þingmenn sér að tala eins og við séum að tala um einhvern jaðarhóp sem sé fráleitt að við eyðum tíma okkar í. 16% erlendra ferðamanna nýttu sér Strætó sama ár. Það er enginn smáfjöldi. Forseti. Ég er þeirrar skoðunar og byggi það að einhverju leyti á gögnum tengdum almenningssamgöngum og borgarþróun að það séu takmörk fyrir því hvað við getum fjölgað farþegum mikið í almenningssamgöngum í núverandi kerfi, að takmörk séu fyrir því að fjölga gulum vögnum á götum borgarinnar í núverandi kerfi. Þess vegna þurfum við að hugsa stórt, hugsa upp á nýtt, gera það sem þjóðir um allan heim eru að gera, borgir af sömu stærðargráðu, minni jafnvel, og koma upp háhraðaalmenningssamgöngum.

Við köllum það borgarlínu, við gætum kallað það Jónas, við gætum kallað það hvað sem er. Stundum hefur mér dottið í hug að skynsamlegra væri að kalla það eitthvað annað, kalla það bara einkabílafélag ríkisins, eitthvað sem myndi dilla þeim sem trúa því að einkabíllinn sé upphaf og endir alls af því að sum virðast hafa bitið það í sig að orðið borgarlína sé svo slæmt. Hvað erum við að tala um? Við erum að tala um að koma í veg fyrir að þeir 40.000 íbúar sem flytja á svæðið á næstu árum noti sömu samgöngumáta og við gerum nú, að fjölgunin falli ekki í sama mynstur. (Gripið fram í: Valmöguleika.) Við erum að gefa valmöguleika, hárrétt. Við erum að bjóða fólki upp á það og við erum að bjóða þeim sem vilja keyra á einkabílnum sínum upp á að það verði jafnvel færri sama sinnis, það verði jafnvel greiðara að keyra um götur bæjarins fyrir þau sem það vilja, eða þurfa, því að sum þurfa einfaldlega að keyra einhverra erinda sinna, sum allra. Við erum ólík, forseti, með ólíkar þarfir. Þetta uppfyllir þær.

Hver er á móti þessu? Jú, það er einfaldasta svar sem ég hef þurft að gefa sjálfum mér í þessari pontu: Miðflokkurinn. Það segir okkur ýmislegt. Það gengur meira að segja svo langt að í nefndaráliti minni hlutans er sérstaklega tekið fram að stofnvegunum sé fagnað og þar er allt í einu traust og þar er ekkert mál að gera eitthvert samkomulag og félag um stofnvegina, bara ekki borgarlínu, þá þarf að koma í veg fyrir að borgarlínan komi.

Forseti. Þetta segir okkur ýmislegt um það hvernig málið er búið, að andstaðan skuli einangrast þar. Mér finnst gott að búið sé að draga það fram. Mér finnst líka gott að við séum komin hingað. Þetta er stór stund. Ég vil þakka hv. fjárlaganefnd fyrir að hafa tekið utan um málið jafn skörulega og hún gerði, unnið það jafn vel áfram og fyrir að þoka okkur í átt til þess að við búum við samgöngukerfi á höfuðborgarsvæðinu sem er okkur bjóðandi á 21. öldinni.