150. löggjafarþing — 115. fundur,  9. júní 2020.

heimild til að stofna opinbert hlutafélag um uppbyggingu samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu.

735. mál
[21:17]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegur forseti. Ég rita undir þetta nefndarálit með fyrirvara um flýti- og umferðargjöld. Þau á ekki að setja samkvæmt öllum áætlunum fyrr en á næsta kjörtímabili og ég tel einfaldlega óþarfa að sett verði á flýti- og umferðargjöld. Þegar allt kemur til alls er hægt að fjármagna þann hluta samkomulagsins með ýmsum öðrum aðferðum, eins og Félag íslenskra bifreiðaeigenda hefur t.d. bent á. Ábatinn af lægri slysatíðni og af framkvæmdunum sjálfum ætti að standa undir þeim mismun sem er á kostnaði við framkvæmdirnar og þeim ábata sem af þeim hlýst. Þann hluta tel ég algjörlega óþarfan. Ég tel það algjörlega óþarft að setja sérstakan skatt á íbúa höfuðborgarsvæðisins ef ekki á að fara í sambærilega skattheimtu um allt land.

Ég tel að miklu frekar ætti að leggja á kílómetragjald, svipað og var í þungaskattinum í gamla daga, á alveg nákvæmlega sama hátt og við erum með mæli fyrir rafmagn og hita, ekkert öðruvísi, nota sama líkan á annað svipað. Samgönguæðarnar okkar eru svipaðar og pípur þar sem við greiðum gjald fyrir hversu mikið við notum þær, alveg eins og allt annað. Þegar aftur á móti eru notuð umferðargjöld, sérstaklega á sérstökum stöðum, þá breytir það allri dýnamíkinni og veldur jafnvel ákveðnu öngþveiti utan þeirra leiða sem er ætlað að bera stofnþungann af umferðinni.

Það sem mér finnst vanta almennt séð í höfuðborgarsáttmálann sem slíkan er eitthvað sem Alþingi þarf að huga að á allra næstu árum. Fólk kemur til með að átta sig á því að gera þarf betur en höfuðborgarsáttmálinn kveður á um, þ.e. í uppbyggingu fyrir annars konar ferðamáta, t.d. hjólreiðar, meira fyrir gangandi vegfarendur, þá sem nota rafskutlur og þess háttar. Sáttmálann tel ég góða byrjun en það verður vonandi og að ég held, og sem betur fer kannski, breyting á næstu árum sem kemur til með að ná þeim markmiðum sem honum er ætlað að ná. Við náum enn meiri árangri í rauninni ef við svörum þeirri þörf og þeirri þróun.

Það er mjög áhugavert að hafa farið í gegnum höfuðborgarsáttmálann. Ákveðin togstreita var um samkomulagið og ákveðin leynd yfir viðræðunum þegar þær voru á sem viðkvæmustu stigi, einmitt vegna flýti- og umferðargjaldanna. Enginn vildi segja að flýti- og umferðargjöld, eða veggjöld í rauninni, væru hluti af sáttmálanum. Þegar það kom aftur á móti síðan í ljós þá náðist að bæta í höfuðborgarsáttmálann að þeir 60 milljarðar sem á að fjármagna eru ekki eingöngu fjármagnaðir með flýti- og umferðargjöldum. Það er gríðarlega mikilvægur hluti af samningnum því að það kemur mjög skýrt fram í þessu nefndaráliti og þingmálum fram að þessu að núverandi meiri hluti gerir ráð fyrir að lögð verði á flýti- og umferðargjöld. Þau verða þó í fyrsta lagi ekki sett á fyrr en á næsta kjörtímabili og til þess þarf þingmál, væntanlega á þessu kjörtímabili. Ég býst a.m.k. við að núverandi stjórn reyni að leggja fram þingmál um veggjöld. Ég hef engan áhuga á því, til að það sé tekið mjög skýrt fram. Ég held að þau séu alger óþarfi og held að það sé bara ágætt að leggja það í næstu kosningar hvort eigi að fara út í innheimtu veggjalda eða ekki. Ég er í rauninni mjög ánægður með að núverandi stjórnarmeirihluti gefi það út að verði hann við völd þá verði tekin veggjöld, þetta sé ekkert flóknara en það.

Mig langar að eyða örstuttum tíma í lokin — til þess að taka ekki of mikinn tíma fyrir þá sem eru á móti málinu en ég held að það sé alveg nauðsynlegt að minnast á það eins og ég talaði um í andsvari áðan — í það að tala um að við erum að glíma við andstæðinga við málið sem eru einfaldlega að veðja á pólitískan hest, að reyna að snapa sér atkvæði kjósenda sem eru á móti borgarlínunni af hvaða ástæðu sem er. Það er ekkert flóknara en það í rauninni í þeirra málflutningi og við þá vil ég einfaldlega segja: Með öllum þeim sviðsmyndagreiningum sem við höfum fengið, sem ég fór yfir áðan og eru nokkrar, ef við ætlum að ná sama árangri án þess að bjóða upp á breyttar ferðavenjur erum við að tala um miklu, miklu meiri kostnað. Við erum jafnvel að tala um tvöfalt meiri kostnað en við borgarlínu. Þeir sem eru á móti borgarlínu tala um gífurlegan kostnað vegna hennar og segja að þetta sé landsmönnum ekki boðlegt. Ég vil spyrja á móti: Hvernig getur það verið boðlegt að borga helmingi meira til þess að ná sama árangri? Það er spurning sem ég held að allir ættu að spyrja sig og skoða einfaldlega þær greiningar sem hafa verið gerðar. Ég veit að verkfræðistofur hafa mjög mikinn áhuga á málinu og hafa gefið álit sitt á því. Keypt hefur verið sviðsmyndagreining frá þeim sem eru sérfræðingar í að reikna mál af þessu tagi út. Mér þætti mjög gaman að fá álíka útreiknað álit frá Miðflokknum. Er þetta verkfræðistofan Miðflokkurinn? Ég skil þetta ekki alveg. Ef við hefðum verið á svipuðu róli fyrir öld síðan þá væri sami flokkur væntanlega að kvarta undan því að verið væri að gera aðför að fólki á hestum. Við vorum á þeim stað í umferðarsögunni að við vorum að skipta úr hestum yfir í bíla. Nú erum við í rauninni að skipta frá eingöngu bílaumferð yfir í valmöguleika um fjölbreyttari ferðamáta af því að borgin er orðin það stór. Hún ber einfaldlega ekki þann þunga umferðar sem hefur verið og er spáð á næstu árum.

Spurningin er þegar allt kemur til alls: Myndum við vilja borga tvöfalt meira til að ná sama árangri og við getum náð með borgarlínu? Svarið finnst mér vera eins augljóst og hægt er að hafa það. Að sjálfsögðu borgum við ekki tvöfalt meira. Ég er ekki til í að borga 50–60 milljörðum meira til að ná sama árangri. Það er algerlega galið dæmi. Allir sem ætla að vera á móti borgarlínunni þurfa vinsamlegast að útskýra hvaðan þeir ætla að fá 50–60 milljarða aukalega og hvernig í andskotanum það á að vera — afsakið orðbragðið — einhvern veginn betra en það sem við höfum fyrir framan okkur núna.