150. löggjafarþing — 115. fundur,  9. júní 2020.

heimild til að stofna opinbert hlutafélag um uppbyggingu samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu.

735. mál
[21:26]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Við ræðum frumvarp til laga um heimild til að stofna opinbert hlutafélag um uppbyggingu samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu. Fyrir liggur nefndarálit meiri hluta hv. fjárlaganefndar og framsögumaður þess, hv. þm. Haraldur Benediktsson, fór vel yfir málið í framsögu sinni. Ég ætla að reyna að höggva ekki alveg í sama knérunn og hv. þingmaður gerði í máli sínu en vil þó segja nokkur orð um málið.

Í þeirri umræðu sem hefur verið hér í dag framan af, virðulegi forseti, er rétt að geta minnihlutaálits sem hv. þm. Birgir Þórarinsson fór yfir í framsögu sinni og fékk andsvör við þar sem hv. þingmaður lýsti andstöðu sinni við borgarlínu, sem er auðvitað einn þáttur í þeirri framtíðarsýn sem birtist í samkomulagi sex sveitarfélaga og ríkisins, höfuðborgarsáttmálanum. Í þessu frumvarpi er hins vegar verið að leggja grunn að sérstöku félagi sem er ætlað að halda utan um fjármögnun og framkvæmdir við uppbyggingu samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu, þar á meðal innviða tengdum almenningssamgöngum.

Meginmarkmiðið með sáttmálanum er háleitt og það eru háleit markmið, fjölbreyttari ferðamátar, og það er auðvitað samningurinn sem liggur að baki því máli sem við ræðum hér og margir tala um sem tímamótasamning sem ég tek alveg undir. Þetta er stór framkvæmd og stór samningur sem að baki liggur á milli þessara sex sveitarfélaga, Reykjavíkur, Kópavogs, Garðabæjar, Hafnarfjarðar, Mosfellsbæjar, Seltjarnarnesbæjar og svo ríkisins. Það er sannarlega mikill áfangi að ná þeirri sameiginlegu framtíðarsýn sem birtist í samkomulaginu og slík samvinna hlýtur að vera grundvöllur þess að tryggja skilvirka framkvæmd og trausta umgjörð verkefnisins, m.a. með því að skilgreina samstarfsformið, eins og hér er verið að gera, og kostnaðarskiptingu og ábyrgð á tilteknum aðgerðum og fjármögnunarleiðir. Það er óhjákvæmilegt.

Fyrirætlanir eru um að ná raunverulegum samgönguúrbótum og hafa stjórn á því hvernig samgöngur og samgöngumáti þróast með áherslu á fjölbreyttan ferðamáta. Það sem mér finnst athyglisverðast í því er að ná fram þeirri flýtingu framkvæmda sem lagt er upp með, að ná fram á 15 árum því sem ella gæti tekið 50 ár. Það er mjög verðugt verkefni og vonandi ganga þær áætlanir eftir vegna þess að það er mjög mikilvægt að ná fram lausnum eins og umferð er að þróast, það er óhjákvæmilegt, og mikilvægt að samgöngur verði skilvirkari og hagkvæmari og um leið umhverfisvænni, vistvænni og í samræmi við áætlanir um að draga úr mengun. Miðflokkurinn hefur lýst andstöðu sinni við borgarlínu án þess, virðulegi forseti — og það leiðréttir mig þá bara einhver — að vera með neina sérstaka lausn á viðfangsefninu sem öll þessi stóru sveitarfélög og ríkið eru sammála um að þurfi að takast á við. Ég held að það væri beinlínis óábyrgt að skipuleggja ekki almenningssamgöngur inn í þá framtíð og gera þær að raunhæfum valkosti, raunhæfum ferðamáta, með greiðari leiðum og möguleika á bættu leiðakerfi. Um það snýst málið og annað væri óábyrgt.

Frumvarpið sem slíkt snýr að stofnun eða heimild til handa ráðherra til að stofna opinbert hlutafélag um þá uppbyggingu, um hlutverk verkefnisins, skipulagsstjórn, hlutafé, lántökuheimildir, aðkomu að frekari samningum sem snúa að uppbyggingunni og framkvæmdum og svo þeim þætti sem snýr að framlagi ríkisins til verkefnisins, þróun Keldnalands. Þetta er í samræmi við 6. gr. sáttmálans. Heildarframlag ríkisins er áætlað 45 milljarðar kr. og sveitarfélögin skila 1 milljarði á ári næstu 15 ár eða 15 milljörðum. Þannig verður helmingur þessarar stóru samgöngufjárfestingar fjármagnaður með beinum framlögum en áætluð heildarfjárfesting verður 120 milljarðar. 60 milljarða er fyrirhugað samkvæmt sáttmálanum að fjármagna með sérstökum flýti- og umferðargjöldum. Slíka gjaldtöku, eins og hefur komið fram í umræðunni og m.a. fór hv. þm. Björn Leví Gunnarsson yfir það, á eftir að þróa og það bíður þingsins að ræða þegar kemur að sérstakri lagasetningu þess efnis. Þess er þó getið í samkomulaginu að aðrir fjármögnunarkostir verði skoðaðir samhliða orkuskiptum. Það er óhjákvæmileg staðreynd, virðulegi forseti, að til framtíðar horfumst við í augu við að þurfa að endurskoða skattlagningu á ökutæki og eldsneyti en hlutfall vistvænna ökutækja eykst hratt eins og mikilvægt er að náist fram. Það er ánægjuefni að sjá það gerast. Það er þó mikilvægt þegar á reynir að þessi þróun á fjármögnun, og hvernig til tekst og hvort ofan á verða flýti- og umferðargjöld eða einhver annars konar gjaldtaka eða skattlagning eða sala eigna, standi ekki í vegi fyrir uppbyggingu í þeirri áætlun og tímalínu sem í samkomulaginu felst.

Einhverjir hafa gagnrýnt félagaformið en nefndin bendir á að félagið er fyrst og fremst fyrirkomulag eða farvegur, vettvangur má segja, fyrir utanumhald um sameiginlega uppbyggingu samgöngumannvirkja, samninga þar að lútandi og þróun og sölu á byggingarlandi við Keldur og þar skiptir máli að hámarka virði þess. Eigendur þurfa að móta skýra stefnu og að baki liggur undirritað samkomulag og mikilvægt til aðgreiningar frá öðrum slíkum félögum að ekki er gert ráð fyrir að félagið komi að opinberum rekstri mannvirkjanna heldur sé hann á hendi Vegagerðarinnar þar sem það á við og eftir atvikum sveitarfélaga.

Í því samhengi er mikilvægt að aðkoma Alþingis, fjárlaganefndar, umhverfis- og samgöngunefndar, sé tryggð og eftirlit, upplýsingagjöf og gagnsæi sé reglubundið og því er áréttað í nefndaráliti meiri hluta að árleg ríkisframlög eru hluti af samgönguáætlun og fjárlögum hvert fjárlagaár og þá kemur til kasta þingsins að fjalla um, í sérstakri löggjöf eins og ég sagði áðan, möguleg umferðar- og flýtigjöld. Öðruvísi verða þau ekki sett á. Þá eru þær kvaðir á félaginu samkvæmt samkomulaginu að það ber að skila eigendum sínum skýrslu um framgang verkefna og fjármál á a.m.k. sex mánaða fresti.

Það er margt undir hér, virðulegi forseti, eins og umræðan hefur borið með sér. Þessi risafjárfesting, 120 milljarðar, horfir til framtíðar og bættra lífsgæða, eykur umferðaröryggi, býður fjölbreyttari ferðamáta, aukna stýringarmöguleika umferðar, minni tafir og umferðarhnúta og þar með aukna framleiðni, umhverfisvænar lausnir og er í takt við áætlanir í loftslagsmálum. Framkvæmdin þarf að fara af stað og því er mikilvægt að við klárum það mál sem snýr að utanumhaldinu og heimilum stofnun opinbers hlutafélags og uppfyllum 6. gr. sáttmálans um fyrirkomulag samstarfsins í sameiginlegri eigu ríkis og sveitarfélaganna sem aðild eiga að samkomulaginu. Það er mikilvægt að hafa í huga, og ég ætla að vísa til d-liðar 6. gr. samkomulagsins, að þær ákvarðanir sem stjórn félagsins þarf að taka og rúmast ekki innan samkomulagsins verður að bera undir samningsaðila þess.

Þetta er jákvætt mál í alla staði og það mun reyna á samvinnu og samstöðu um verkefnið alla leið. Áformin eru nauðsynleg og samkomulagið er forsenda og eins verður að setja það í farveg, sem þetta félag er, fyrirhuguð stofnun þess, og náðist samstaða um að stofna í samkomulaginu samvinnuvettvang um verkefnið eins og ég kýs að líta á það. Öll þau markmið sem undir liggja eru þó mikilvægasti þátturinn í samkomulaginu, að styðja við breyttar ferðavenjur og gera almenningssamgöngur að raunhæfari valkosti. Með orkuskiptum ökutækja, breyttri skattlagningu, auknu umferðaröryggi, og færri slysum í umferðinni þar með, færumst við nær loftslagsmarkmiðum og allt lýtur þetta að bættum lífsgæðum, virðulegi forseti. Nú ríður á að koma verkefninu almennilega af stað og frumvarpið er liður í því. Þörfin er ekki síður við þær aðstæður sem eru uppi núna.