150. löggjafarþing — 115. fundur,  9. júní 2020.

heimild til að stofna opinbert hlutafélag um uppbyggingu samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu.

735. mál
[21:55]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M) (andsvar):

Herra forseti. Það er gaman að skiptast á skoðunum við hv. þingmann. Hann segir að ég sé með úrelt sjónarmið til almenningssamgangna, þetta myndi allt breytast ef allir hefðu ekki þessi leiðindasjónarmið gagnvart almenningssamgöngum. Ég var einmitt nýbúinn að segja að ég deildi þeim skoðunum með hv. þingmanni að það væri óskandi að fleiri nýttu sér þær en að neyða fólk til að ganga í lið með meiri hlutanum í Reykjavík til þess að teppa umferð enn frekar á höfuðborgarsvæðinu en orðið er, og þykir þó flestum nóg um, teppa umferð í þeirri von, herra forseti, að fólk hoppi úr einkabílum og upp í næsta strætó, er það ætlunin? (Gripið fram í: Já.) Er ætlunin að neyða fólk? Ég hef nú reyndar heyrt þetta sjónarmið að það ætti bara að neyða fólk (Gripið fram í: Nei.) til þess að vera í umferðarteppum, svo miklum, erfiðum, leiðinlegum og langvarandi að fólk legði bara einkabílnum og hoppaði upp í næsta strætó. Ég deili ekki þeim áhuga á að neyða fólk svona. Það hefur verið framkvæmdastopp á höfuðborgarsvæðinu í mjög langan tíma varðandi það að byggja upp stofnbrautir og mislæg gatnamót til þess að auðvelda fólki á fjölskyldubílum að komast leiðar sinnar, komast til vinnu, komast þangað sem ferðinni er heitið.