150. löggjafarþing — 115. fundur,  9. júní 2020.

heimild til að stofna opinbert hlutafélag um uppbyggingu samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu.

735. mál
[21:57]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna. Hún var athyglisverð og endurspeglar viðhorf sem hefur svo sem heyrst skýrt í þessum sal þegar kemur að uppbyggingu fjölbreyttra samgöngumannvirkja. En ég hjó eftir því að hv. þingmaður sagði að hann lenti oft og iðulega, ég veit ekki hvort ég fer alveg rétt með, hvort það var oft og iðulega, alla vega allnokkrum sinnum í því að sjá auða strætisvagna á götum úti. Ég hef reyndar heyrt það oft á síðustu árum, oftast hjá fólki sem notar ekki strætisvagna, það tekur eftir því að strætisvagnar séu jafnvel tómir. Mig langar að spyrja hv. þingmann: Keyrir hann einhvern tímann vegi sem eru nánast tómir? Þá langar mig líka að spyrja hv. þingmann, vegna þess að hann sagði ef ég hjó rétt eftir að það væri falleg og góð hugsun og hann vildi gjarnan að fleiri nýttu sér almenningssamgöngur: Hvaða leið telur hv. þingmaður að sé best til þess fallin að fá fleiri til að nýta sér almenningssamgöngur?