150. löggjafarþing — 115. fundur,  9. júní 2020.

heimild til að stofna opinbert hlutafélag um uppbyggingu samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu.

735. mál
[22:01]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það vill svo til að ég hef nákvæmlega lausn á því. Lausnin er borgarlína. Það er ekki bara mín lausn. Það er ekki lausn borgarstjórans í Reykjavík. Það er lausn allra sérfræðinga sem hafa unnið að svæðisskipulagi á höfuðborgarsvæðinu og í borgarsamfélögum víða um heim. Það er efling almenningssamgangna með aukinni tíðni og bættri þjónustu. Það er það sem við erum að ræða hér.

En ástæðan fyrir því að ég spurði hv. þingmann hvort hann hefði einhvern tímann keyrt nánast auða vegi er sú að þegar við ræðum um almenningssamgöngur verðum við að horfa á þær sem þjónustu og ákveðið flæði, alveg eins og vegir eru. Það verður að öllum líkindum svoleiðis þegar ég keyri heim til mín upp í Mosfellsbæ eftir kannski klukkutíma eða tvo að vegurinn þangað verður mjög fámennur. Fáir bílar verða á veginum og ég mun geta keyrt nokkuð greitt. En þegar ég keyrði hingað niður eftir í morgun var bíll við bíl og það tók mjög langan tíma að komast hingað. Það er nákvæmlega það sama með almenningssamgöngur. Strætisvagninn sem keyrði úr Mosfellsbæ hingað niður í miðbæ í morgun var stappfullur. Strætisvagninn sem keyrir hingað á eftir verður með nokkrum farþegum, mjög fáum, en það er eðli samgangna. Við notum þær meira þegar fleiri eru á ferðinni og það er einmitt þess vegna sem samgöngur eins og borgarlínan eru svo mikilvægar til að auka afkastagetuna.

Vegna þess að hv. þingmaður fór aðeins yfir afraksturinn af þeirri vegferð sem farið hefur verið í á síðustu árum við að auka almenningssamgöngur, og ég mun fara betur yfir það í ræðu minni á eftir, þá held ég að mikilvægt sé að hér komi fram nokkrar tölur. Fjöldi farþega Strætós á hvern íbúa á höfuðborgarsvæðinu jókst um 22% frá 2011–2017 en bílaumferð á hvern íbúa um 21%. Árið 2009 fór hver íbúi að meðaltali 37 sinnum með strætisvagni en fór yfir 54 ferðir árið 2017. Fastanotendur Strætós voru 14.899 árið 2017, sem er þreföldun frá 2011 þegar þeir voru rétt um 5.000. (Forseti hringir.) Ég gæti haldið áfram og mun gera það í ræðunni á eftir.

Hv. þingmaður, við erum með lausnina en það er sorglegt að heyra að Miðflokkurinn hefur ekki lausn á því (Forseti hringir.) hvernig við bætum samgöngur á höfuðborgarsvæðinu.