150. löggjafarþing — 115. fundur,  9. júní 2020.

heimild til að stofna opinbert hlutafélag um uppbyggingu samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu.

735. mál
[22:06]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Forseti. Við ræðum mál sem ég er eiginlega hissa á, í ljósi annarra nafnabreytinga, að skuli ekki hafa fengið nýtt nafn og vera kallað þingmál um samgöngugjöf ríkisstjórnarinnar til meiri hlutans í Reykjavíkurborg. Ef tilefni var til að endurnefna ferðaávísunina, ferðastyrkinn, þá er sannarlega tilefni til að lappa aðeins upp á þetta mál og gefa því nýtt nafn og kalla það samgöngugjöf, kalla það því réttnefni sem á við því að hér er um það að ræða að ríkisstjórnin, meiri hlutinn í þinginu með dyggum stuðningi stórs hluta borgarstjórnarflokkanna á þingi, er að leggja til hvernig ríkið geti fjármagnað kosningaloforð meiri hlutans í Reykjavík, sérstaklega borgarstjórans og Samfylkingarinnar.

Í 1. umr. um málið ræddi ég það mjög á almennum nótum en málið er hins vegar þannig vaxið að það er fullt tilefni til að fara í gegnum frumvarpið sjálft og fjalla um einstakar greinar þess til að leiða fram hver tilgangurinn er í raun. Þetta er á svo margan hátt hreint ótrúlegt mál, hreint ótrúleg vitleysa. Menn eiga á hættu á að sitja uppi með það til a.m.k. 15 ára og að það verði baggi á bæði ríki og sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu sem ekki sér fyrir endann á, ekki aðeins fjárfestingarkostnaðurinn heldur einnig rekstrarkostnaðurinn sem menn virðast alveg hafa gleymt að gera ráð fyrir í þeirri áætlunargerð sem liggur fyrir, eins takmörkuð og hún reyndar er.

Hér er verið að leggja til nýtt opinbert hlutafélag, af því það hefur reynst svo vel. Verið er að leggja til að stofnað verði nýtt ríki innan landamæra Íslands sem hafi það að markmiði, og með ótrúlegum völdum sem því eru falin, að uppfylla kosningaloforð Samfylkingarinnar í Reykjavík eins og þau voru auglýst margítrekað í útvarpi og á netinu fyrir síðustu borgarstjórnarkosningar.

Í 2. gr. frumvarpsins er fjallað um hver meginmarkmið félagsins skulu vera. Ég ætla ekki að fara yfir allan listann en þau eru, með leyfi forseta:

„a. Að stuðla að greiðum, skilvirkum, hagkvæmum og öruggum samgöngum á höfuðborgarsvæðinu með jafnri uppbyggingu innviða allra samgöngumáta.“

Ágætismarkmið, ég held að enginn ágreiningur sé um það. En er það ekki hlutverk stjórnvalda? Er ekki hlutverk kjörinna fulltrúa í sveitarfélögum og á Alþingi að framkvæma nákvæmlega þetta? Hvers vegna í ósköpunum er verið að búa til sérstakt félag, sjálfstætt opinbert hlutafélag, til að sjá um það sem er eitt af grundvallarverkefnum kjörinna fulltrúa? Það er vegna þess að þetta mál er í eðli sínu kerfismál á allan hátt. Fá mál sem hafa verið lögð fram á síðustu árum eru eins skýr dæmi um kerfisvæðingu stjórnmálanna á Íslandi. Með því vill ríkisstjórn Íslands og meiri hlutinn á þingi og fylgitungl hennar í málinu afsala stjórnmálamönnum ekki aðeins á þinginu, heldur einnig kjörnum fulltrúum í sveitarfélögunum á höfuðborgarsvæðinu, því valdi sem þeim er ætlað að standa skil á. Á fjögurra ára fresti er fólk kosið til þess að innleiða ákveðna stefnu um akkúrat þessi mál en hér er lagt til að það vald verði tekið frá kjósendum með því að taka það frá kjörnum fulltrúum þeirra og færa það til ósnertanlegs opinbers hlutafélags sem verður sjálfstætt ríki í ríkinu — og við erum bara komin í a-lið 2. gr. frumvarpsins þar sem markmiðunum er lýst.

B-liður hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Að stuðla að því að loftslagsmarkmiðum stjórnvalda um sjálfbært, kolefnishlutlaust borgarsamfélag verði náð.“

Gott og vel. Hér er annað markmið úr auglýsingaherferð Samfylkingarinnar fyrir síðustu borgarstjórnarkosningar, eins óljóst og það nú er með hvaða hætti málið mun ná þessu útópíska markmiði um sjálfbært og kolefnishlutlaust borgarsamfélag. Ef til vill leynast svörin eftir því sem við förum lengra í gegnum frumvarpið. Við látum þetta nægja af markmiðunum sem ég ítreka þó að eru fyrst og fremst lýsing á því með hvaða hætti stjórnvöld ætla að taka valdið af kjörnum fulltrúum og færa það til félags á valdi kerfisins.

3. gr. frumvarpsins fjallar um hlutverk og verkefni félagsins og þar segir í a-lið, með leyfi forseta:

„Að halda utan um fjármögnun á uppbyggingu samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu og hrinda þeirri uppbyggingu í framkvæmd.“

Ekki aðeins á félagið að sjá um að hrinda verkefnunum í framkvæmd heldur á það líka að sjá um fjármögnun. Þarna er enn á ný verið að taka vald af kjörnum fulltrúum og þar með af almenningi, bæði á sviði fjármögnunar og framkvæmdar verkefna.

Í b-lið segir um hlutverk og verkefni:

„Að fara með heildstæða áætlanagerð og áhættustýringu.“

Þarna er það þá komið. Áætlanagerðin á líka að vera á hendi þessa sjálfstæða félags sem kjósendur hafa afskaplega lítið um að segja. Ekki einu sinni áætlanagerðin á að vera hjá kjörnum fulltrúum. Þannig að þegar blásið er til sveitarstjórnarkosninga eða alþingiskosninga geta menn ekki einu sinni haft neinar verulegar skoðanir á áætlanagerð í samgöngumálum á höfuðborgarsvæðinu því að áætlanagerðin er komin til þessa sjálfstæða félags.

Í c-lið segir:

„Að hafa yfirumsjón með samræmingu verkefna og meta forgangsröðun.“

Það er nefnilega það. Samræmingin og forgangsröðunin á líka að fara frá stjórnmálamönnunum til félagsins. Oft er talað um að meginverkefni stjórnmálamanna, ekki hvað síst þegar kemur að fjárútlátum, sé að forgangsraða. Það sé það erfiða fyrir stjórnmálin, að stjórnmálamenn þurfi að forgangsraða og standa skil á þeirri forgangsröðun gagnvart kjósendum. En nei, samræming og forgangsröðun á að fara frá kjósendum og til þessa opinbera hlutafélags.

Loks segir í d-lið:

„Að fylgja því eftir að sveitarfélögin vinni að nauðsynlegum breytingum á skipulagsáætlunum.“

Það er mjög áhugavert, herra forseti. Það er sem sagt hlutverk og verkefni félagsins að fylgja því eftir að sveitarfélögin vinni að nauðsynlegum breytingum á skipulagsáætlunum í samræmi við markmiðin hérna. Með öðrum orðum er ekki bara verið að taka valdið af kjósendum og stjórnmálamönnum, það á auk þess að færa þessu félagi vald til að hafa yfirumsjón með stjórnmálunum, með sveitarfélögunum og þinginu og því að sveitarfélögin vinni að nauðsynlegum breytingum á skipulagsáætlunum samkvæmt mati félagsins. Félagið gefur út tilskipanir um að tiltekin sveitarfélög þurfi að gera ákveðnar skipulagsbreytingar alveg óháð því hvað kjósendum finnst og hvað kom út úr síðustu kosningum. Félagið segir: Garðabær eða Kópavogur eða eitthvert annað af þessum sveitarfélögum þarf að gera breytingar til að við getum náð þeim markmiðum sem við vinnum að samkvæmt lögum frá Alþingi.

En þetta er ekki búið, herra forseti. 3. gr. um hlutverk og verkefni félagsins er ekki búin, e-liðurinn er eftir. Og hvað skyldi þar nú vera? Þar segir, með leyfi forseta:

„Að innheimta flýti- og umferðargjöld á höfuðborgarsvæðinu, verði ákveðið með lögum að leggja slík gjöld á, og byggja upp innviði slíkrar innheimtu.“

Boðað hefur verið að það verði gert samhliða þessu. Með öðrum orðum: Þetta fyrirtæki á auk þess að fá innheimtuhlutverk. Nú fer að verða lítið eftir fyrir stjórnmálamenn að gera í sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu eða á Alþingi í samgöngumálum á höfuðborgarsvæðinu því að þetta nýja félag, þetta nýja ríki í ríkinu, á líka að sjá um innheimtu á nýjum gjöldum og ekki skortir hugmyndaauðgina hjá þessari ríkisstjórn við að finna upp ný gjöld til að leggja á almenning, ekki hvað síst á sviði samgöngumála. Nú eru þau kölluð flýti- og umferðargjöld. Þau hétu áður tafagjöld. Ætli það hafi ekki verið sama auglýsingastofan og breytti heiti frumvarpsins um ferðaávísanir í frumvarp um ferðagjafir sem ákvað að tafagjöld væru of lýsandi fyrir það sem átt væri við með gjaldtökunni. Því var fundið upp nafnið flýtigjöld um þessi gjöld sem hafa þveröfug áhrif eins og ég kem inn á á eftir.

En hafi menn talið að þá væri allt komið í 3. gr. sem lýsir hlutverki og verkefni félagsins verð ég að hryggja áheyrendur með því að það er einn liður enn. Það er f-liðurinn. Þar segir, með leyfi forseta, um hlutverk félagsins:

„Að annast þróun á landi sem lagt verður til félagsins með það að markmiði að ná fram hámörkun á virði þess.“

Ekki nóg með að félagið eigi að taka að sér að framfylgja flestu því valdi sem stjórnmálamenn, kjósendur, höfðu áður um samgöngumál í sínum sveitarfélögum heldur á það einnig að verða fasteignafélag ríkisins, annast fasteignabrask með land ríkisins til þess að nýta svo fjármagnið sem út úr því kemur til að standa straum af þeim hugðarefnum sem lýst er í frumvarpinu sem markmiðum þessa félags, þessa fyrirtækis.

Félagið á reyndar að gera samninga við Vegagerðina en félagið mun annast yfirumsjón, eins og segir í frumvarpinu, og eignaeftirlit. Það gerir samninga við Vegagerðina. Það er ekki ríkið eða sveitarfélögin sem semja við Vegagerðina eins og verið hefur, þetta félag gerir það. Það hefur yfirumsjón og annast eignaeftirlit með uppbyggingu samgöngumannvirkja gagnvart Vegagerðinni og gerir áætlanir eins og lýst er hér áður.

Í 3. gr. segir einnig:

„Í slíkum samningi skal eftir atvikum skilgreina þátt tiltekinna sveitarfélaga í einstökum verkefnum.“

Ef menn náðu þessu ekki alveg í fyrri lið 3. gr. um að félagið gæti skipað sveitarfélögum fyrir um hvernig þau eigi að haga skipulagsmálum sínum er þá er það áréttað hér að í samningum við Vegagerðina geti félagið skilgreint þátt tiltekinna sveitarfélaga í einstökum verkefnum. Félagið semur við Vegagerðina og skilgreinir hvað Mosfellsbær á að gera eða Garðabær. Er til skýrara dæmi um kerfisvæðingu stjórnmálanna á Íslandi, herra forseti, en þetta frumvarp?

Við erum bara komin að 4. gr. Hún snýr að hlutafé félagsins. Hvernig verður það til? 75% eignarhlutur á að koma frá ríkinu og 25% leggja sveitarfélögin til, sem er svolítið sérstakt í ljósi þess að málið snýst um að uppfylla kosningaloforð, sérstaklega tiltekins flokks í Reykjavík eftir síðustu borgarstjórnarkosningar. Ríkið ætlar að leggja til 75% fjármagnsins, Reykjavík einhverjar prósentur og hin sveitarfélögin í kring bæta það svo upp. 75% af fjármögnun félagsins eiga að koma frá skattgreiðendum á Íslandi, almenningi landsins, þar með talið á Akureyri, Ísafirði, Fáskrúðsfirði, Vík í Mýrdal og svo mætti lengi telja, til þess að fjármagna kosningaloforð Samfylkingarinnar í Reykjavík.

En í 4. gr. segir einnig, með leyfi forseta:

„Sá ráðherra er fer með eignir ríkisins skal fara með hlut ríkisins í félaginu […]“ — vegna þess að eins og iðulega í opinberum hlutafélögum er það bara ráðherrann sem heldur á eina hlutabréfinu, þessu hlutabréfi upp á 75% og fer með það vald sem því fylgir. Ekki Alþingi heldur ráðherrann.

Og talandi um stjórn félagsins, þá er komið að 5. gr. Stjórn félagsins heitir hún og þar segir m.a., með leyfi forseta:

„Stjórn félagsins skal skipuð sex einstaklingum og skal val þeirra staðfest á aðalfundi ár hvert. Ráðherra“ — þessi með hlutabréfið — „tilnefnir þrjá aðalmenn og Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu tilnefna þrjá.“

Þannig að ríkið sem á 75% tilnefnir helming stjórnarmanna. Ég geri ráð fyrir að á einn eða annan hátt, ef óbreytt stjórnarfar verður í Reykjavík, muni Reykjavíkurborg hvort eð er ráða þessu. Það skiptir kannski ekki öllu máli hvort ráðherrann eða sveitarfélögin leggja til stjórnarmennina.

Þá er það 7. gr., herra forseti. Hún heitir Yfirtaka og þróun lands í eigu ríkisins. Þar segir, með leyfi forseta:

„Félagið skal með sérstökum samningi við ráðherra taka við landi í eigu ríkisins ásamt þeim réttindum og skyldum sem því tengjast og telst það hluti af hlutafjárframlagi ríkisins.“

Aðeins seinna segir:

„Félagið skal annast þróun landsins í samvinnu við skipulagsyfirvöld með það að markmiði að hámarka virði landsins og uppbyggingarmöguleika þess eins og kostur er.“

Þarna er sem sagt verið að lýsa hlutverki félagsins sem fasteignabraskara ríkisins. Svo vitum við náttúrlega ekkert hvort staðið verður við þetta. Í gær sáum við dæmi um að Reykjavíkurborg stóð ekki við skilyrði í samningi sem ríkið gerði í einhverju óðagoti við Reykjavíkurborg um að afhenda borginni land undan sjálfum Reykjavíkurflugvelli, sameign landsmanna. Það er líklega of snemmt að segja til um hvort það sama á við um þennan samning þótt dæmin séu því miður orðin æði mörg um að borgin fari sínu fram og ríkið, sérstaklega þessi ríkisstjórn, virðist einfaldlega ekki hafa hugmynd um hvað það er að skrifa undir í samskiptum sínum við borgina, sérstaklega í samgöngumálum, þar sem hvað eftir annað kemur á daginn að samgönguráðherrann kemur af fjöllum þegar borgin fer að útskýra hvað hann hafi verið að skrifa undir.

En þetta er ekki búið, herra forseti. Félagið hefur auknar heimildir, eins og útskýrt er í öðrum greinum, t.d. heimildir til lántöku, með ríkisábyrgð, og heimildir til að stofna dótturfélög þannig að félagið getur farið að skipta sér, fjölga sér, og búa til ný dótturfélög undir þessu ríki, svona undirríki þessa nýja ríkis í ríkinu. Það gerir félagið, að því er virðist, algerlega án aðkomu þingsins, enda er tilgangurinn með þessu, það fer ekkert fram hjá þeim sem lesa frumvarpið, að búa til sjálfstætt kerfi sem er óháð ákvörðunartöku og óháð því að þurfa að sitja undir einhverjum ákvörðunum kjósenda eða stjórnmálamanna. Það er því kannski ekkert til að vera hissa á að félagið hafi heimild til þess að fjölga sér og búa til dótturfélög, væntanlega í sama tilgangi.

En þá að greinargerðinni, herra forseti. Þar er stuttlega farið yfir markmið frumvarpsins í heild, hvers vegna menn eru að þessu, reynt að útskýra það áður en farið er í hverja grein fyrir sig. Í greinargerðinni segir m.a.: „Með þeim aðgerðum sem koma fram í sáttmálanum […]“ Hvaða sáttmála? spyr hæstv. forseti eflaust. Það er sáttmálinn sem er hér alls staðar undirliggjandi, svokallaður samgöngusáttmáli höfuðborgarsvæðisins. Með aðgerðunum sem koma fram í sáttmálanum er ætlunin að takast á við aukna umferð á höfuðborgarsvæðinu og aðrar umferðartengdar tafir. En nei, hvað kemur svo í ljós þegar við förum að skoða hvernig á að gera þetta, eins og í glænýrri skýrslu um borgarlínuna, þar sem loksins er leitast við að útskýra fyrir almenningi hvernig hún eigi að vera? Þar er ekki ætlunin að greiða fyrir umferð (Forseti hringir.) heldur að þrengja að henni.

Herra forseti. Getur verið að tími minn sé liðinn? (Forseti hringir.) Ég er ekki einu sinni byrjaður á endinum á 1. kafla. Ég bið hæstv. (Forseti hringir.) forseta að setja mig aftur á mælendaskrá.

(Forseti (HHG): Skal gert.)