150. löggjafarþing — 115. fundur,  9. júní 2020.

heimild til að stofna opinbert hlutafélag um uppbyggingu samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu.

735. mál
[22:48]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka fyrir tækifærið til að útskýra orð mín ef þau misskildust með þeim ótrúlega hætti sem hv. þm. Þorsteinn Sæmundsson fór með áðan. Ég hafði eftir úr ræðu annars þingmanns: Það á bara að fara í þessa uppbyggingu, sama hvað menn segja. Það sem ég sagði í þeim efnum er já, það á að fara í þá uppbyggingu, sama hvað Miðflokkurinn segir í þessum sal vegna þess að hann hefur látið í það skína í ræðum að þetta sé bara hugarfóstur einhvers eins manns eða meiri hlutans í Reykjavík og enginn raunverulegur vilji sé fyrir þessum framkvæmdum. Það sem ég reyndi að fara yfir í ræðu minni, og ég vona að það hafi skilist, er að uppbygging borgarlínu hefur verið til umræðu í fjölda ára í öllum sveitarfélögunum á höfuðborgarsvæðinu og hjá öllum helstu verkfræðistofum og sérfræðingum á sviði skipulags- og samgöngumála. Þetta er niðurstaðan og ég fagna mjög því lýðræðislega samtali sem átt hefur sér stað á síðustu árum sem gert hefur hugmyndina jafn góða og hún er í dag. En þar með er ég ekki að segja að einhver megi ekki vera á móti og ég ber fulla virðingu fyrir því og það er ágætt að hér sé flokkur sem taki það skýrt fram að hann sé á móti borgarlínunni. Það hefur komið fram mjög skýrt í máli flokksins.

Á hvers kostnað á að leggja rauða dregla? Á kostnað samfélagsins vegna þess að samgöngumannvirki eru á kostnað samfélagsins. Það er alveg sama hvort það er hjólreiðastígur eða akvegur fyrir einkabílinn eða fyrir strætó, hann er á kostnað samfélagsins.

Hv. þingmaður kom inn á það hvernig á að koma borgarlínunni fyrir á höfuðborgarsvæðinu. Það er útfært í deiliskipulagi hvers svæðis fyrir sig. Það er misjafnt eftir sveitarfélögum og misjafnt eftir stöðum á höfuðborgarsvæðinu. Sums staðar verður auðvelt að koma þessu fyrir, annars staðar verður það erfitt, alveg eins og bættum samgöngumannvirkjum. Það er ekkert flókið að breyta samgöngum inni í þéttri byggð en þegar okkur fjölgar þurfum við að finna leiðir til að nýta betur rýmið. Það er það sem tillagan gengur út á.