150. löggjafarþing — 115. fundur,  9. júní 2020.

heimild til að stofna opinbert hlutafélag um uppbyggingu samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu.

735. mál
[22:53]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Bryndísi Haraldsdóttur fyrir ræðuna. Ég verð að viðurkenna að ég legg alltaf við hlustir þegar hún fjallar um mál af þessu tagi. Hún býr að mikilli og góðri reynslu sem sveitarstjórnarmaður í Mosfellsbæ, í hinu fagra bæjarfélagi þar.

Það er líka áhugavert að hlusta á hana vegna þess að hún varpar með vissum hætti ljósi á hið svolítið sérstaka samband sem ríkir á milli sveitarfélaganna í kringum Reykjavík sem eru að mestu leyti með meiri hluta Sjálfstæðisflokksins í stjórn. Meiri hlutarnir þar eru í þessu sérkennilega sambandi við meiri hlutann í Reykjavík sem er leiddur af Samfylkingunni og borgarstjóra Samfylkingarinnar en skipulagsmálin eru í höndum Pírata. Þetta er ákveðin innsýn og ákveðin þversögn vegna þess að síðan er Sjálfstæðisflokkurinn í minni hluta í Reykjavík og á þar í harðvítugri baráttu við meiri hlutann sem Sjálfstæðisflokkurinn í sveitarfélögunum í kring og á landsvísu er í samstarfi við, vegna þess Sjálfstæðisflokkurinn á landsvísu er með vissum hætti að fjármagna kosningaloforð vinstri meiri hlutans í Reykjavík.

Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir að lýsa með myndrænum hætti hvað borgarlína er og ég sé það miklu betur þegar hún hefur sagt að hún sé rauður dregill fyrir strætó. 4% nota strætó og hv. þingmaður er náttúrlega með allar þessar tölur á hreinu eins og við heyrðum, en 95–96% ferðast með fjölskyldubíl. Féð sem hér er undir skiptist þannig, eins og kemur fram til að mynda í nefndaráliti, að í framkvæmdir á stofnvegum, sem hv. þingmaður nefndi að (Forseti hringir.) hefðu fengið skammarlega lítið fé á undanförnum fimm árum, fara (Forseti hringir.) 52,2 milljarðar. Síðan á nánast sama fjárhæð, 49,6 milljarðar, að fara í borgarlínu og spurningin er: (Forseti hringir.) Hvað fæst fyrir þá peninga? Er ekki hægt að ná þeim árangri sem (Forseti hringir.) hv. þingmaður lýsir, að greiða fyrir almenningssamgöngum, með ódýrari hætti en að setja í það (Forseti hringir.) 50 milljarða?

(Forseti (HHG): Forseti biður hv. þingmenn að gæta að ræðutíma.)