150. löggjafarþing — 115. fundur,  9. júní 2020.

heimild til að stofna opinbert hlutafélag um uppbyggingu samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu.

735. mál
[22:56]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Það er ekki bara svo að Sjálfstæðismenn séu í meiri hluta í næstum öllum sveitarfélögum í kjördæmi mínu heldur er það í öllum, svo ég fái að monta mig af því. Í velflestum sveitarfélögum hafa þeir reyndar verið þar býsna lengi, í mörgum sveitarfélögum einir í meiri hluta en líka í samstarfi við aðra flokka eins og í Mosfellsbæ við Vinstri græn, í Kópavogi og Hafnarfirði við Framsókn núna og það hefur auðvitað verið breytilegt. Auðvitað myndi ég alveg vilja að Sjálfstæðismenn væru líka í meiri hluta í Reykjavík, það er alveg á hreinu.

Hv. þingmaður var að lýsa þessu sérstaka samstarfi. Ég hef langa reynslu af sveitarstjórnarstiginu og þar hafa bæjarfulltrúar og sveitarstjórnarfólk komið sér ágætlega saman um verkefni óháð því í hvaða flokki fulltrúarnir eru. Ég held reyndar að við hér á þingi gætum lært mjög margt af sveitarstjórnarstiginu.

Hv. þingmaður spurði mig líka út í hlutfallið og af hverju fleiri nýttu sér ekki almenningssamgöngur eða hvort til væri ódýrari eða hagkvæmari leið til að efla þær. Ég var að reyna að koma inn á það í ræðunni og viðurkenni að þegar ég fór fyrst inn í verkefnið fyrir mörgum árum var ég ekki sannfærð um að það væri leiðin. En þegar búið var að fara yfir alla kosti og meta kostnaðinn við þá samgöngumannvirkjauppbyggingu sem þarf til að halda hér ferðatímanum innan tilhlýðilegra marka þá er sá kostur að velja bara stofnvegina, sem kallar á göng í gegnum Öskjuhlíðina, fjölda mislægra gatnamóta og fleiri göng á höfuðborgarsvæðinu, dýrasti kosturinn. Þetta er blönduð leið og hún er hagkvæmari. Grunnurinn að því öllu er að það kostar alltaf að reka almenningssamgöngukerfi og það kostar minna ef almenningsvagnarnir fá sérrými, komast hraðar yfir og geta veitt betri þjónustu. Það er einmitt hægt að sýna (Forseti hringir.) fram á að þetta samkomulag er ástæðan fyrir því að allir sveitarstjórnarfulltrúarnir sem eru búnir að sitja yfir málinu í fjölda ára (Forseti hringir.) komust að þeirri niðurstöðu að þetta væri akkúrat rétt blanda.