150. löggjafarþing — 115. fundur,  9. júní 2020.

heimild til að stofna opinbert hlutafélag um uppbyggingu samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu.

735. mál
[23:00]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Eins og ég kom reyndar inn á í ræðu minni þá er það að einungis 4% nýti sér almenningssamgöngur ekki alveg rétt. 4% ferða, samkvæmt ákveðinni könnun, eru farin með almenningssamgöngum. Það er reyndar svoleiðis að það eru líka til kannanir frá Land – ráði sem benda til þess að það hlutfall sé komið upp í 7–8%. En stóra málið er auðvitað það að farþegum í strætó hefur fjölgað gríðarlega eins og ég fór yfir. Til að ná fram enn frekari fjölgun þurfum við að bæta tíðnina, þ.e. strætó þarf að fara oftar og ferðatíminn þarf að vera styttri. Til að gera það þarf hann að geta ekið í sérrými. Til þess þarf að búa til sérstakar akreinar. Þetta er sú kostnaðargreining sem kemur frá sérfræðingum hvað það varðar þannig að ég ætla ekki að fara að gagnrýna það með einhverjum hætti. En við verðum líka að horfa til þess að þó að allt of litlir fjármunir hafi farið til samgöngumannvirkja á síðustu misserum hafa þeir nær eingöngu farið til uppbyggingar samgöngumannvirkja (Forseti hringir.) sem nýtast nánast eingöngu fyrir einkabíla. Það er aðeins á síðustu árum sem við höfum séð auknar framkvæmdir hvað almenningssamgöngur og (Forseti hringir.) aðra virka samgöngumáta varðar.