150. löggjafarþing — 115. fundur,  9. júní 2020.

heimild til að stofna opinbert hlutafélag um uppbyggingu samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu.

735. mál
[23:02]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Bryndísi Haraldsdóttur ræðuna. Mér þótti hún æðisérstök á köflum og það var gaman að hlusta á hv. þingmann fara yfir það að í Kraganum væri orðið hálfpúkó fyrir fólk að hafa hús, bíl og garð, það væri á undanhaldi. Ég er ekki viss um að margir séu þeirrar skoðunar á Seltjarnarnesi og í Garðabæ, svo dæmi sé tekið.

En til að leiðrétta allan misskilning þá er enginn misskilningur um að þetta séu órar eins manns, eins og ég held að hv. þingmaður hafi orðað það. Þetta er kosningaloforð Samfylkingarinnar í Reykjavík. Það liggur fyrir. En það er alveg greinilegt að talsmaður Sjálfstæðisflokksins á Alþingi hvað almenningssamgöngur og uppbyggingu vegakerfisins og samgöngukerfisins á höfuðborgarsvæðinu varðar er algjörlega fastur á þeirri skoðun.

Mig langar til að spyrja hv. þm. Bryndísi Haraldsdóttur tveggja spurninga. Í fyrsta lagi: Hefur þingmaðurinn séð rekstraráætlun fyrir svokallaða borgarlínu eftir að rekstur hennar hefst? Þá væri áhugavert að vita, ef svo er, hvort sveitarfélögin sjái fram á að þurfa að bæta í meðgjöf með þessu almenningssamgöngukerfi frá því sem núna er gagnvart Strætó.

Hin spurningin er mjög afmörkuð og einföld: Verður akreinum á einhverjum svæðum fækkað frá því sem nú er, sem fjölskyldubíllinn hefur til notkunar í dag? Er áætlað í fyrsta áfanga borgarlínu að fækka akreinum á einhverjum hluta veglínunnar?