150. löggjafarþing — 115. fundur,  9. júní 2020.

heimild til að stofna opinbert hlutafélag um uppbyggingu samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu.

735. mál
[23:04]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Ég ætla að byrja á því að segja að mér finnst ekki púkó að búa í einbýlishúsi og vera með garð. Ég bý þannig sjálf. Það sem ég sagði áðan var að þegar horft er til framtíðar og á vilja næstu kynslóða er hann aðeins öðruvísi en vilji kynslóðanna í dag. Það er eitt af því sem ég lagði mikið upp úr sem formaður skipulagsnefndar í Mosfellsbæ, að við ætluðum einmitt líka að bjóða upp á þannig lausnir, vera með einbýlishús og garð og stór bílastæði fyrir framan þau því að við viljum líka að fólk geti valið hvernig það býr. Við vitum núna að fleiri að kjósa líka fjölbýli, deilibílahagkerfið og þess háttar og vilja ekki láta jafn mikla fjármuni liggja í fasteignum eða bifreiðum.

Kosningaloforð, þetta var mitt kosningaloforð. (BergÓ: Það var ekki spurning.) Nei, en ég fullyrði það hér, það getur vel verið að einhverjir aðrir hafi líka lofað því en ég lofaði því líka.

Hef ég séð rekstraráætlun fyrir borgarlínuna eftir að rekstur hefst? Ég hef séð sviðsmyndir af því og ég þekki mjög vel til reksturs Strætós þar sem ég var þar lengi stjórnarformaður. Borgarlínan er ekkert alveg nýtt lag af almenningssamgöngum. Það þýðir auðvitað að leiðir sem eru í dag svokallaðar stofnleiðir færast yfir í þetta kerfi. Þær verða hagkvæmari í rekstri þegar þær geta ekið óhindrað á sérakreinum. En það að bæta tíðnina kostar auðvitað meira.

Hv. þingmaður spyr: Þarf að bæta í meðgjöf? Þar vil ég koma inn á atriði sem mér finnst alveg gríðarlega mikilvægt. Mér finnst gríðarlega mikilvægt að þingheimur skilji að almenningssamgöngur eru ekki skilgreint verkefni sveitarfélaga. Það er ekkert í lögum sem segir að sveitarfélögin eigi að reka þær. Í öllum borgarsamfélögum í kringum okkur er rekstur svona þjónustu samstarf ríkis, sveitarfélags eða þriðja stjórnsýslustigsins sem þar er á milli. Það er þar af leiðandi fullkomlega eðlilegt að bæði ríki og sveitarfélög komi að þeim rekstri, eins og hefur reyndar verið gert en með allt of litlu framlagi að mínu viti. (Forseti hringir.) En ég geri ráð fyrir því að það framlag sem fer til almenningssamgangna á næstum misserum nýtist mun betur þegar (Forseti hringir.) þjónustan er bætt og fleiri kjósa að nýta sér þá leið.