150. löggjafarþing — 115. fundur,  9. júní 2020.

heimild til að stofna opinbert hlutafélag um uppbyggingu samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu.

735. mál
[23:23]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna. Hún nefndi fyrirkomulagið á Akureyri. Ef ég hjó rétt eftir var hv. þingmaður að vísa í það að þar væri gjaldfrjálst í strætó, ekki satt? Já. Þá langar mig að geta þess að til eru ýmsar rannsóknir um það hvort gjaldfrjálsar almenningssamgöngur skili tilætluðum árangri. Ég átta mig á því að þróunin er jákvæð á Akureyri og víða hafa verið gerðar rannsóknir sem sýna að notkunin eykst, alla vega tímabundið. Það eru líka ókostir við það. Þar hefur verið nefnt að skemmdarverkum í vögnum hafi fjölgað, minni samfélagsleg sátt sé um að við eigum þetta allt saman og það þurfi að gæta að því. Bílstjórar upplifa þetta sumir hverjir með neikvæðum hætti og annað þess háttar. Niðurstaðan í þeim efnum sem ég hef lesið um þetta er að það henti oft vel eða ágætlega á smærri svæðum en síður á stærri svæðum. Við þekkjum það úr Reykjavík að til að mynda var frítt í strætó fyrir námsmenn. Það voru bara allt of fáir sem sóttu sér kortin þótt þau væru gefins. Ég held þess vegna að það þurfi að fara varlega í það, af því að þetta kostar jú og það er alltaf einhver sem þarf að borga þannig að það er skynsamlegt að hluti af kostnaðinum sé greiddur af þeim sem nýta það.

Mig langaði aðeins að koma inn á það sem hv. þingmaður tók hér dæmi um, að stofnanir séu að flytja úr miðborginni. Hún tók sérstaklega dæmi um Hafró sem flutti nýlega í Hafnarfjörð, sem er auðvitað mjög mikilvægt. Ég vil sjá miklu meira af slíkum flutningum. Það er auðvitað mjög skynsamlegt vegna þess að höfuðborgarsvæðið er eitt atvinnusvæði og þá er engin skynsemi fólgin í því að öll atvinnutækifæri liggi á vestasta odda höfuðborgarsvæðisins. Ég vona að ég og hv. þingmaður getum einmitt sameinast um mikilvægi þess að bæði íbúabyggð og atvinnu sé dreift (Forseti hringir.) um höfuðborgarsvæðið allt.